Ölfus tilbúið að axla ábyrgð með móttöku á flóttafólki

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss hefur rætt við við dómsmálaráðherra og aðstoðarmann félags- og vinnumálaráðherra og gert þeim grein fyrir því að Sveitarfélagið Ölfus sé tilbúið að axla þá ábyrgð sem þarf til að takast á við umfang flóttamannastraumsins frá Úkraínu.

Benti hann á að Ölfusborgir gætu verið gott og aðgengilegt úrræði þar sem ef til vill mætti setja upp bráðabirgðaskóla, félagsþjónustu og fleira.

„Mikilvægt er að vinna þetta yfirvegað og kerfisbundið þar sem haldið er utan um málin á miðlægan máta. Þess vegna gleðst ég yfir fumlausum viðbrögðum ríkisins og Rauða krossins eins og þau hafa birst okkur í dag og seinustu daga. Á næstu stigum verður svo leitað til okkar hjá sveitarfélögunum og ég á ekki von á öðru en að þar leggist allir á eitt og við þar með.“, segir Elliði í samtali við Hafnarfréttir.