Þór mætir Val í undanúrslitum á morgun – Miðasala hafin

Íslandsmeistarar Þórs mæta Val í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfubolta, annað kvöld í Smáranum í Kópavogi. Miðasala er í fullum gangi í appinu Stubbur.

Það lið sem sigrar leikinn mætir annaðhvort Stjörnunni eða Keflavík í bikarúrslitum á laugardaginn en allir leikirnir fara fram í Smáranum eins og fyrr segir.

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á Valsmönnum síðastliðinn fimmtudag í deildinni og má því fastlega gera ráð fyrir hörku leik þar sem ekkert verður gefið eftir.

Þá skiptir miklu máli að hafa góðan stuðning úr stúkunni og hvetjum við alla sem geta að næla sér í miða og mæta á völlinn og láta vel í sér heyra.