Við erum hér fyrir þig

Þú sem íbúi í Sveitarfélaginu Ölfus veist upp á hár hvað þér þykir mega fara betur í okkar góða samfélagi. Íbúalistinn býður fram krafta sína til að þjónusta þig og aðra íbúa sem hér búa og munu búa í framtíðinni. Við erum í þjónustuhlutverki og þú, kæri íbúi, ert það sem skiptir okkur máli, við erum hér fyrir þig, umhverfið sem þú býrð í og framtíðina. 

Við viljum þess vegna byrja á að vekja athygli á því að þú getur komið á framfæri þínum skoðunum í gegnum heimasíðuna ibualistinn.is og með því að senda okkur skilaboð á instagram og faceboook. Við hvetjum þig til að deila með okkur þínum hugleiðingum, því vilji og skoðanir íbúa skipta okkur máli. 

Þess utan ætla frambjóðendur Íbúalistans að leggja sig fram við að hitta ykkur sem flest á komandi vikum því ekkert jafnast á við að ræða saman um uppbyggileg málefni í eigin persónu. 

Við á Íbúalistanum höfum vissulega okkar skoðanir á því hvað mætti betur fara og hvað það er sem okkur langar að gera fáum við til þess umboð í komandi kosningum. Ástríða okkar liggur í því að gera samfélagið gott fyrir alla. Við viljum að allir búi við öryggi en hvað það þýðir að upplifa öryggi getur verið mismunandi á milli fólks, hvar það er statt á lífsveginum og hvernig aðstæður þess eru. 

Fyrir einhverja þýðir það að upplifa öryggi að koma barninu sínu á leikskólann þegar fæðingarorlofi lýkur, fyrir aðra þýðir það að geta unnið í heimabyggð. Fyrir eldra fólk getur það verið öryggið sem fylgir því að vita að það fái þjónustu í sinni heimabyggð ef heilsan brestur og það þarfnast meiri umönnunar. Fyrir foreldra sem hafa áhyggjur af vellíðan barna sinna getur öryggið falist í því að vita að barnið muni fá skjóta og góða þjónustu. 

Þarfir okkar eru ólíkar en öll skiptum við máli. Við erum hér fyrir þig. 

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, frambjóðandi í 1. sæti Íbúalistans

Böðvar Guðbjörn Jónsson, frambjóðandi í 2. sæti Íbúalistans