Þórsarar í bikarúrslit

Íslandsmeistarar Þórs tryggðu sér sæti í úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta eftir frábæran sigur á Valsmönnum í kvöld þegar liðin mættust í undanúrslitum í Smáranum í Kópavogi.

Leikurinn var stál í stál næstum allan leikinn en Þórsarar voru þó oftast skrefi á undan. Valsmenn komu sterkir inn í seinni hálfleikinn en Þórsarar áttu alltaf svör og fór svo að Íslandsmeistararnir unnu að lokum fimm stiga sigur 90-85.

Þórsarar mæta Stjörnunni í úrslitaleiknum á laugardaginn og hefst leikurinn klukkan 16:45.

Núna þurfa allir að taka fram grænu flíkina úr skápnum og fjölmenna á völlinn í Smáranum á laugardaginn. Miðasala mun fara fram í appinu Stubbur.