Hefði mátt gera betur? Já.

Fræðslu- og uppeldismál öllum sveitarfélögum mikilvæg. Á miðju yfirstandandi kjörtímabili tók undirritaður ásamt 6 af 7 bæjarfulltrúum ákvörðun um að semja við Hjallastefnuna um rekstur leikskólans Bergheima. Það var gert af einlægum vilja til að gera gott starf enn betra. Hugmyndin var að tengja okkar öfluga starfsfólk við stærstu rekstrareiningu í leikskólamálum á öllu landinu. Einingu þar sem starfa hundruðir fagmannasem stutt geta og hvatt hver annan. Ákvörðunin var tekin með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Reynt var að vinna málið á þann hátt að sem minnst tómarúmmyndi myndast. Innan við klukkutíma eftir að tekin var ákvörðun um að taka upp viðræður við Hjallastefnuna var fundað með öllum starfsmönnum og þeim tilkynnt um þessa ákvörðun.  Samdægurs var foreldrum tilkynnt um þessar viðræður. Í samræmi við 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 var fengin umsögn foreldraráðs leikskólans hvað var ákvörðun bæjarstjórnar um viðræður og mögulega samningagerð um rekstur Bergheima. Sú umsögn var með þessum hætti: „Foreldraráð Bergheima lýsir yfir stuðningi með þá fyrirætlan að samið verði við Hjallastefnuna um aðkomu að rekstri Bergheima.“ Þá var skipaður starfshópur sem var til ráðgjafar um innleiðingu nýrrar stefnu. Í stýrihópnum sátu tveir fulltrúar úr fjölskyldu- og fræðslunefnd, tveir fulltrúar starfsmanna leikskólans Bergheima, tveir fulltrúar foreldra, skipaðir af foreldraráði, og einn fulltrúi stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Í framhaldinu kom fram að starfsmenn fundu fyrir óöryggi þegar ráðningasamningur við Sveitarfélagið var í uppnámi ogenn ekki kominn ráðningasamningur við Hjallastefnuna. Eðli málsins samkvæmt gat Hjalli ekki endurráðið starfsmenn fyrr en samningi yrði komið á. Af þeim sökum var reynt að vinna málið hratt áfram.

Til baka litið hefði undirritaður viljað gera hlutina öðruvísi. Vinna málið hægar, jafnvel þótt það hefði valdið óvissu. Á því biðst ég afsökunar.

Í fullri einlægni tel ég, eftir sem áður, að við höfum allar forsendur til að gera Bergheima enn betri. Innan veggja Bergheima starfar fagfólk sem hefur þekkingu og reynslu til að ná þeim markmiðum. Fái þau einfaldlega svigrúm til þess. Svo mikið er víst að ég treysti þessum öflugu starfsmönnum jafnvel nú og ég gerði áður.

Það er hreinlega á ábyrgð mína og hinna 5 bæjarfulltrúanna sem tóku þessa ákvörðun hversu mikil deila spratt upp í kjölfarið. Það eru allar líkur á því að ef öðruvísi hefði verið staðið að málum, þá hefði orðið meiri sátt um málið. Sú óánægja sem þarna varð til mælist enn og stendur í vegi fyrir áframhaldandi innleiðingu stefnunnar. Því þarf að breyta. Af þessu læri ég. Það er á hreinu.

Það var óskemmtilegt að lesa nýlega grein um niðurstöður foreldrakönnunar sem framkvæmd var í vetur. Ég hef að vísu ekki séð niðurstöðurnar sjálfar þar sem þær hafa ekki fengið formlega umfjöllun í stjórnsýslunni. Um er að ræða hrágögn sem hafa ekki verið fullunnin og einungis nokkrir þættir dregnir fram í greininni. Heildarmyndin liggur ekki fyrir. Það er verr.

Eftir stendur að við ætlum að gera gott betra.

Við erum ekki sátt, ef rétt reynist, að ánægja með leikskólann okkar sé að dvína. Við viljum að öllum börnum líði vel og séu hamingjusöm í lok dags. Við viljum að allir foreldrar séu sáttir við stjórnun leikskólans og þá vinnu sem fer fram þar og höfum fulla trú á að þau markmið náist þegar innleiðingu stefnunnar verður loks að fullu lokið. 

Við viljum gera gott betra.

Grétar Ingi Erlendsson, 3. sæti D-listans í Ölfusi