Ekkert er meira virði en velferð barna og barnafjölskyldna!

Þann 29. apríl var birt, í Hafnarfréttum og Vísi.is, aðsend grein frá Hrafnhildi Lilju Harðardóttur og Berglindi Friðriksdóttur, frambjóðendum í Ölfusi, undir yfirskriftinni „Hvers virði er velferð barna?“ Í greininni var því lýst hvernig sveitarfélagið Ölfus hefði gert þjónustusamning við Hjallastefnuna um rekstur leikskólans Bergheima í sveitarfélaginu. Þar var aðdraganda, eða skorti þar á, lýst og einnig því hvernig hagsmunaaðilar voru ekki upplýstir um þessar breytingar. Ekkert er yfir gagnrýni hafið, undirritaður getur tekið undir raddir þeirra Hrafnhildar og Berglindar að þegar horft er til baka þá hefði verið hægt að gera betur. Hjallastefnan hefði þannig getað gert betur í kynningarmálum gagnvart aðstandendum barna.  Í skólum Hjallastefnunnar er það einmitt æft daglega að allir eiga það á hættu að ruglast, að gera eitthvað sem þeir vildu hafa gert betur – en svo æfum við okkur og gerum betur næst.

Titill greinarinnar er spurningin Hvers virði er velferð barna? og svarið við þeirri spurningu er alltaf að velferð barna skipti öllu máli, er alls virði. Velferð barna er einmitt það sem dreif stofnanda Hjallastefnunnar, Margréti Pálu Ólafsdóttur, á þá vegferð að móta skólastefnuna og hugmyndafræðina sem Hjallastefnan er. Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna sem umvefur börn og aðstandendur þeirra í öllu sínu starfi. Það sem einkennir Hjallastefnuna, við fyrstu sýn, er kynjaskipt skólastarf, skólafatnaður barna og starfsfólks, umhverfi sem er einfalt og áreitalítið. En auk þess er mikil og rík áhersla lögð á vinnufrið, rósemd og falleg samskipti í skólasamfélaginu.

Höfundar greinarinnar velta því upp að ólíklegt sé að það sé börnum fyrir bestu að foreldrar þeirra hafi engan kost annan en að vista börn sín á leikskóla sem er með stefnu sem gengur þvert gegn þeirra sannfæringu og gildum. Því miður eru mörg minni sveitarfélög í vanda þar sem aðeins einn leikskóli – og einn grunnskóli – er í boði fyrir foreldra. Hins vegar eru allar skólastefnur góðar, þær byggja á barnhverfri upeldisfræði og stór hluti alls skólastarfs er í eðli sínu hinn sami. Athyglisvert mætti telja að kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna þar sem áhersla er lögð á kurteisi, framkomu, samstöðu, sjálfstraust, bjartsýni, gleði og áræðni í starfi, og hefur notið mikils stuðnings foreldra um árabil, geti gengið þvert gegn sannfæringu og gildum frambjóðenda. Hugsanlega eiga greinahöfundar við aðra þætti í skólastefnunni. Það er einfalt að einblína á kynjaskiptingu sem tæki í jafnréttisuppeldi  eða einfaldleika í efniviði í stað fjöldaframleiddra leikfanga en stefnan stendur fyrir svo margt fleira.  Fyrir áhugasama mætti benda á heimasíðu Hjallastefnunnar www.hjalli.is, en þar má glöggva sig á meginreglum og kynjanámskrá Hjallastefnunnar og öðru efni um hugmyndafræðina og skólastarfið.

Greinarhöfundar eru í framboði fyrir pólitískt afl sem hefur góða stefnuskrá í málefnum leikskóla, má þar nefna fyrirheit um að efla sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla. Að styðja framþróun og faglegt starf og að flýta byggingu nýs leikskóla í sveitarfélaginu eins og kostur er. Eins er á stefnuskránni að fella niður framlög foreldra, eða skólagjöld. Hjallastefnan er sammála þessum stefnumálum. Birting hluta úr foreldrakönnun og án nánari greiningar teljum við ekki vænlegt fyrir öflugan, pólitískan skólastuðning. Það er ekkert leyndarmál að útkoma er undir landsmeðaltali og er lakari en í fyrri könnunum. Hins vegar eru 82% – 89% ánægðir með leikskólann, stjórnun hans, húsnæði og aðstöðu og telja að barn þeirra sé ánægt í leikskólanum. Á sama hátt eru 82% – 92%, ánægð með vinnubrögð, aðstöðuna, félagsleg samskipti og þátttöku án aðgreiningar.

Í greiningarvinnu sérfærðiaðila segir: „Skýrar vísbendingar eru um skautun í niðurstöðum (polarisation), þ.e. mun á skoðunum eftir hópum. Almennt virðast foreldrar yngri barna vera ánægðari á meðan foreldar elstu barnanna, barnanna sem eru að fara í grunnskóla í haust, sýna mesta óánægju.“ Ekki þarf nema nokkra foreldra sem eru óánægðir með pólitíska ákvörðun fyrir nær tveimur árum, til að sveifla leikskólanum undir landsmeðaltal og þá er litið fram hjá hinum yfirgnæfandi meirihluta sem er mjög sáttur styðjandi við leikskólann að öllu leyti.

Eins gætti misskilnings hvað varðar stuðningsþjónustu og sérkennslu. Þessi viðhorfskönnun passar ekki við skráð raungögn sérkennslustýru skólans og teljum að þjónusta við börn og barnafjölskyldur séu til fyrirmyndar í styrkum höndum  sérkennslustýru, þroskaþjálfa og tveggja annarra einstaklinga sem  sinna stuðningi við börn.

Starfsfólk Bergheima, stjórnendur, kjarnastýrur og hópstjórar vinna einstakt starf sem við erum stolt af. Kærleiksríkt starfsumhverfi þar sem hvert barn fær notið sín á sínum forsendum er eitt af einkennum Hjallastefnuskóla. Með sambærilegri aðferðarfræði og greinahöfundar beittu í sínum skrifum mætti mála aðra og bjartari mynd, byggða á sömu gögnum.  

Hinir ánægðu foreldrar sögðu m.a.

„Börnunum er mætt á jafningja grundvelli og unnið vel með það sem betur má fara í fari barnsins. Vel tekið eftir hverju barnið skarar fram úr í og verkefni þyngd eftir þörfum.“

„Er mjög glöð með starfsfólk á (tilteknum kjarna) Barnið mitt er rosalega ánægt á leikskólanum. Ég er hrifin af Hjallastefnunni. Alls ekki of lítið af dóti. Mér líkar við skólafatnaðinn.”

„Börnunum mætt með miklum skilningi.“

„Elska opna efniviðinn, gott starfsfólk, gott dagsskipulag, barnið mitt elskar matinn á leikskólanum. Það er alltaf tekið svo vinalega og fallega á móti barninu mínu og líka þegar það er kvatt.“

„Er ánægð með starfið heilt yfir. Börnin mín eru alltaf ánægð í leikskólanum.“

„Góð samskipti við skólastýru.“

„Öll upplýsingagjöf og samskipti eru til fyrirmyndar.“

„Frábært starf, alveg glæsilegt.“

Mergurinn málsins er sá að við getum alltaf gert betur, dregið lærdóm af því sem gert er og bætt okkur. Til að hægt sé að nýta heildarniðurstöður í foreldrakönnun Skólapúlsins þá þarf að horfa heildrænt á slíka könnun. Skoða þarf allar spurningar og greina gögnin sem Hjallastefnan mun gera með starfsfólki Bergheima og foreldrum og  nýta þann efnivið hvar við getum stækkað okkur og styrkt. Það er einlægur vilji til þess að gera einmitt það með því ótrúlega fagfólki sem starfar með börnum í sveitarfélaginu á hverjum degi. Greinarhöfundar hafa nefnilega lög að mæla þegar þær segja að í starfsfólkshópi Bergheima má finna hafsjó af sérfræðiþekkingu á málefnum leikskóla og þar er framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar þeim hjartanlega sammála.

Með virðingu og vinsemd,
Bóas Hallgrímsson framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar