Anna Margrét opnar sýningu í Gallerí undir stiganum

Fimmtudaginn 21. júlí klukkan 17 mun Anna Margrét Smáradóttir opna sýningu á verkum sínum í Galleríi undir stiganum í Bæjarbókasafni Ölfuss.

Anna Margrét er 43 ára gömul og býr ásamt börnunum sínum í Þorlákshöfn. Hún útskrifaðist sem myndlistarkennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Hún starfar í dag sem myndlistarkennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn ásamt því að vera umsjónarkennari á unglingastigi. Hún hefur sótt fjölda námskeiða í gegnum árin, bæði í leirlist og olíumálun.

Árið 2021 hélt Anna Margrét sína fyrstu sýningu ,,Furðudýr og fylgifiskar“ sem var hluti af dagskrá Hamingjunnar við hafið í Þorlákshöfn. Í maí 2022 hélt hún sína fyrstu opinberu einkasýningu ,,Uppgjör“ í Litla Gallerý í Hafnarfirði.

Sýningin stendur út ágúst mánuð en bæjarbókasafnið býður uppá kaffi og konfekt við opnunina á fimmtudaginn.