Einlægur vilji til samráðs við íbúa Þorlákshafnar

Vegna frétta og umræðu síðustu daga um lóðaúthlutun í Þorlákshöfn vill HeidelbergCement koma því á framfæri að fyrirtækið skilur vel þær áhyggjuraddir sem heyrst hafa, einkum út frá því hvernig málið hefur verið sett fram. Fyrirtækið hefur engin áform önnur en að vanda til verka við fyrirhugaða uppbyggingu í góðu samráði við íbúa og bæjaryfirvöld.

Fyrirtækið hefur nú fengið vilyrði fyrir lóðum í Þorlákshöfn en að öðru leyti er verkefnið á byrjunarstigi og endanleg ákvörðun um uppbyggingu hefur ekki verið tekin.

HeidelbergCement Pozzolanic Materials ehf. er systurfélag Hornsteins, sem m.a. á og rekur B.M. Vallá, og hefur þannig góð tengsl við Ísland og íslenskt samfélag. Undanfarið hefur fyrirtækið skoðað möguleika þess að reisa verksmiðju í Þorlákshöfn til að mala móberg sem síðar yrði notað í sementsframleiðslu. Notkun móbergs, sem finna má á Íslandi og í nágrenni Þorlákshafnar, og vinnsla þess með endurnýtanlegri orku á Íslandi er til þess fallið að breyta og draga verulega úr neikvæðum loftslagsáhrifum sementsframleiðslu á heimsvísu.

Næst á dagskrá er að kanna frekar fýsileika verkefnisins. Eingöngu grunnhönnun er hafin og verið er að skoða hvaða leiðir gætu verið mögulegar varðandi flutning efnisins. Ekki hefur því þótt tímabært að hefja kynningar og samráð við nærsamfélagið en það er alveg skýrt af hálfu HeidelbergCement að verði farið í svona vegferð verði allt kapp lagt á að tryggja góða sátt við nærumhverfið. Fyrirtækið vinnur af metnaði að því að minnka kolefnisspor og umhverfisáhrif vegna sementsframleiðslu og vill standa að verkefnum þannig að sómi sé að. Um leið og fullnægjandi grunn gögn liggja fyrir hyggur fyrirtækið á kynningu á áformum sínum með hlutaðeigendum og samráð bæði við yfirvöld og íbúa Ölfuss.

Ef af verkefninu verður er það einlægur vilji fyrirtækisins að vinna það í góðri sátt við samfélagið, bæði íbúa þess og náttúru, og mun Heidelberg kappkosta að vera í hvívetna góður nágranni.

Með vinsemd,
Þorsteinn Víglundsson, talsmaður HeidelbergCement Pozzolanic Materials ehf. á Íslandi