Erla Dan Jónsdóttir er Ölfusingur vikunnar. Hún er mikill dugnaðarforkur og vinnur þessa dagana að undirbúningi Skammdegishátíðarinnar Þollóween ásamt vöskum hópi kvenna úr þorpinu. Hún er mikill húmoristi, elskar leiklistina og þeir sem hana þekkja vita að hún hefur mikinn áhuga á að föndra og skreyta, hvort sem um er að ræða um jól, bæjarhátíð eða Þollóween. Hún er formaður Leikfélags Ölfuss og er dugleg að taka þátt í menningar- og félagsstörfum í sveitarfélaginu.
Fullt nafn: Erla Dan Jónsdóttir
Aldur: 44 ára
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Karli Jónssyni og á tvö börn, þrjú stjúpbörn og fjögur barnabörn
Starf: Stuðningsfulltrúi í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri
Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma? Bjó í Þorlákshöfn frá 1986-1995, flutti þá á Selfoss þar sem ég bjó í 20 ár og kom svo aftur hingað 2016 og hef búið hér síðan.
Hver er uppáhalds maturinn þinn? Steiktur fiskur í raspi að hætti Kalla
Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún? Bækur eftir Stephen King voru í uppáhaldi þegar ég var unglingur. Ég les alltof lítið í dag, því miður.
Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur? Sister Act 1 og 2
Hvað hlustar þú mest á? Nöldrið í sjálfri mér. Ég tala mjög mikið við sjálfa mig þegar ég er að brasa eitthvað og einbeita mér. Annars er ég alæta á tónlist.
Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi? Oddabraut 14
Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf? Það klikkar aldrei að horfa á Mamma Mia
Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma. Hún er þrautseig og gefst aldrei upp.
Hvaða lag fær þig til að dansa? Euphoria með Loreen
Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin? Já, ég hef grátið af gleði. Til dæmis við fæðingu barna minna en líka þegar ég fer út fyrir þægindarammann og geri eitthvað sem ég hélt að ég gæti ekki.
Hvað elskar þú við Ölfus? Þollóween, Leikfélag Ölfuss, vinina og fjölskylduna sem ég á hér. Mér finnst þetta alla jafna gott samfélag þar sem fólk er samheldið.
Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar? Menningarhús í gamla Meitlinum og einhverskonar strandstemningu og aðstöðu í Skötubótinni. Svo langar mig að koma á fót unglingadeild innan leikfélagsins því það eru ekki öll börn og ungmenni sem vilja stunda íþróttir í tómstundum og þurfa vettvang á borð við þennan til þess að njóta sín.
Hver er uppáhalds æskuminningin þín? Jólabakstur með mömmu
Hvert dreymir þig um að fara? Til Afríku
Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega? Vertu þú sjálfur og ekki láta aðra stjórna þér. Að vera bara Erla. Ekki segja já þegar ég meina nei. Að vera betri í dag en í gær. Svo finnst mér mikilvægt að geta hlegið að sjálfum sér.
Hvað er framundan hjá þér? Ég er á fullu núna að undirbúa Þollóween sem verður 24.-30. október ásamt öðrum frábærum konum. Þar erum við meðal annars að undirbúa draugahús sem allir ættu að heimsækja. Svo erum við í Leikfélagi Ölfuss að græja leikhúsið okkar að Selvogsbraut 4 sem vonandi verður klárt til sýninga eftir áramót. Svo vorum við að kaupa nýtt hjólhýsi á Flúðum þar sem við höfum átt sælureit í nokkur ár. Planið er að njóta þess að vera þar eins mikið og hægt er. Svo langar mig voðalega að vinna vel í garðinum hjá mér næsta sumar því mig dreymir um að vera með græna fingur. Kannski kaupi ég mér bara græna hanska. Annars er alltaf nóg að gera hjá mér.
Eitthvað að lokum? Ég vil hvetja fólk til að vera duglegt að sækja viðburði á Skammdegishátíðinni Þollóween. Það er gríðarleg vinna á bak við þessa viku og hópurinn sem að þessu stendur er algjörlega magnaður. Svona hátíð verður einmitt til með fólkinu sem að henni stendur og að sjálfsögðu þeim sem sækja hana. Ekki gera ekki neitt. Tökum þátt í öllu því frábæra starfi sem er í boði hér í okkar góða samfélagi og styðjum það sem er að gerast í heimabyggð.