Gott að byrja daginn á því að ákveða að vera góður

Elliði Vignisson er Ölfusingur vikunnar. Hann þarft vart að kynna fyrir íbúum í Ölfusi enda hefur hann gengt starfi bæjarstjóra Ölfuss í bráðum tvö ár. Auk þess er Elliði mikill fjölskyldumaður sem dreymir meira um að vera en fara eins og kemur vel í ljós í svörum hans hér að neðan.

Fullt nafn:
Elliði Vignisson

Aldur:
50 ára.

Fjölskylduhagir:
Giftur bestu konu í heimi, henni Berthu minni. Saman eigum við tvö börn, Nökkva Dan og Bjarteyju Bríet. Þau eru bæði svo heppin að hafa haft móðir sína nærri sér í uppvextinum og því afar vel heppnuð.

Starf:
Bæjarstjóri

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Í rétt tæp tvö ár.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Ég vel hér að líta sem svo á að bjór sé matur, til að auðvelda mér svarið. Bjórinn Punk, frá skoska bjórframleiðandanum BrewDog er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekki vegna þess að hann sé endilega besti bjór í heimi, heldur vegna þess að í gegnum hann lærði ég að þekkja hvað skilur góðan bjór frá minna góðum bjór.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Ég á mér nokkrar uppáhaldsbækur og vinn stöðugt í því að eignast þær. Í mestu uppáhaldi hjá mér eru bækur sem hafa mótandi áhrif á menningu líðandi stundar, sett spor í sandinn. Helst þannig að þær hafi breytt viðhorfi mannsins sem tegundar til sjálfs síns. Þar inni eru til dæmis bækur eins og “On the origin of species” eftir Darwin, “Three Essays on the Theory of Sexuality” eftir Freud, Biblían og fl. Svo er undirflokkur í þessu sem eru bækur sem hafa heillað mig persónulega svo mjög að ég les þær aftur og aftur svo sem Sjálfstætt fólk, Njála, Meistarinn og Maragaríta, bækur Ayn Rand og margar fleiri.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Þær eru nú nokkrar. Forest Gump er í eftirlæti hjá okkur fjölskyldunni ekki hvað síst út af frábærri tónlist í myndinni.

Hvað hlustar þú mest á?
Ég hlusta mjög mikið á tónlist. Sennilega mest á klassíkt rokk eins og Led Zeppelin, Black Sabbath, Thin Lizzy, Uriah heep og fleiri. Svo tek ég skorpur til að reyna að læra eitthvað nýtt.  Þessa dagana er ég til dæmis að hlusta mikið á Miles Davis.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Herdísarvíkin er náttúrulega í algjörum sérflokki og í raun keppa fáir staðir í heiminum við hana. Þar ræður náttúran miklu en ekki síður stórfengleg saga Einars Ben. sem ásamt Hlín konu sinni reisti þar bæ sem enn stendur. 

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Þetta er nú flókin spurning. Ég er algerlega og einlæglega háður fjölskyldunni minni. Hún er mín hleðslustöð og blessunarlega er sú orka umhverfisvæn og sjálfær. Vinir mínir og félagar gegna líka stóru hlutverki þegar kemur að því að viðhalda lífsorkunni.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Án vafa eru það foreldrar mínir, börnin mín, konan mín og vinir. Það er náttúrulega stórkostleg tilfinning að finna að bæði kynslóðin fyrir framan mig og aftan mig eru mér betri á allan veg. Svo hefur hún Bertha konan mín haft gríðarlega mótandi áhrif á mig. Án hennar væri ég sennilega löngu dauður. Vinir mínir eru síðan einhver fallegasta mósaíkmynd sem sett hefur verið saman. Allir ofboðslega ólíkir sem gerir það að verkum að ég get sótt mér í senn stórkostlegar og ólíkar fyrirmyndir í þeim.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Dans og tónlist er eins og sitt hvor hliðin á sama peningnum.  Ég er nú ekki mikill dansari en ég þegar ég hlusta á tónlist þá finnur maður iðu þeirra bylgna sem hjá sumum kalla fram dans hríslast um líkamann.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Jájá, svo oft. Ég er mikil tilfinningavera og hughrif verða oft mjög sterk hjá mér. Ég grét til dæmis af gleði þegar börnin mín fæddust og oft bæði fyrir og eftir það.

Hvað elskar þú við Ölfus?
Náttúran er algerlega sér á parti hérna og tækifærin óþrjótandi. Ég heillast samt ekki síður af þeirri einlægu nánd og vináttu sem íbúar hér sýna hver öðrum. Það er til mikillar eftirbreytni.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Ég vil byrja á að segja að íbúar hér og stjórnendur hafa í gegnum tíðina staðið sig gríðarlega vel. Reyndar svo vel að okkur skortir ekkert. Ég myndi þó vilja sjá hér fleiri íbúa og held að það væri gott fyrir okkur að vera með svona þrjú til fjögur þúsund íbúa í Þorlákshöfn til viðbótar við svona 1000 manns í dreifbýlinu. Í kringum slíkan íbúafjölda væri hægt að sníða enn frábærara mannlíf, menningu, listir og hverskonar þjónustu. Svo vil ég sjá höfnina stækka, fiskeldið vaxa, ylrækt dafna, Þorláksskóga spretta og svo margt fleira.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Ég er einn af þeim heppnu. Æska mín var hreint stórkostleg.  Áhyggjulaus og ég umlukin ást og umhyggju. Ef ég fengi eina ósk þá myndi ég vilja að allir gætu fengið að njóta þeirra forréttinda að alast upp í þannig umhverfi.

Hvert dreymir þig um að fara?
Mig dreymir meira um að vera en fara. Mig dreymir um að vera með fjölskyldunni í sumar, hitta vini mína í enduroferð, taka skák með Svavari bróðir og svo margt fleira. Hvar slíkt gerist skiptir mig ekki nokkru máli.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Orð Gandhi um að frelsi sé ekki til neins nema það feli í sér frelsi til að gera mistök, tala mjög sterkt til mín, enda geri ég afskaplega mörg mistök. Svo lærði ég það snemma úr bókinni “Láki jarðálfur” að það er gott að byrja daginn á því að ákveða að vera góður.

Hvað er framundan hjá þér?
Þessa dagana er bara vinna fram undan og það er bara frábært. Það eru forréttindi að fá að vera stjórnandi og virkur þátttakandi í samfélagi á sögulegum tímum eins og við erum að upplifa núna. 

Eitthvað að lokum?
Hafið öll miklar og góðar þakkir fyrir hversu vel þið hafið tekið á móti mér og minni fjölskyldu. Hér líður okkur eins og blómi í eggi. Get ekki látið hjá líða án þess að taka mér í munn orð Jónasar Sig. „Hamingjan er hér“ sem ég skil betur núna en í fyrsta skipti sem ég heyrði lagið og þann frábæra texta.