Hlutverk Þorlákshafnar sem fiskihafnar vex samhliða hlutverki hennar í vöruflutningi

Ekki fer á milli mála að lífið við höfnina hefur fengið nýtt súrefni með auknum siglingum Smyril Line á markaði erlendis. Í hverri viku siglir Akranesið á Danmörku og Mykinesið á Rotterdam og ljóst að markaðurinn hefur verið fljótur að grípa þau tækifæri sem þessu fylgir. Flestir þekkja þau áhrif sem tilkoma þessara flutningsleiða hafa haft fyrir vöruflutning til og frá Evrópu og ekki þarf annað en að keyra fram hjá tollaplaninu til að sjá hversu mikið vægi Þorlákshöfn nú hefur fyrir inn- og útflutning.

Á seinustu vikum hefur svo aukið líf færst í hlutverk hafnarinnar sem fiskihafnar. Samhliða því sem þjónusta við flotann hefur verið aukin með vaxandi löndunarþjónustu og fl. Eyjabátarnir svo sem Vestmannaey, Smáey og Þórunn Sveinsdóttir hafa til að mynda gripið þessi tækifæri og líklegt að þeir verði tíðir gestir hér í framtíðinni. Í morgun landaði svo Vinnslustöðvarbáturinn, Breki VE u.þ.b. 65 körum af karfa sem fór beint í útflutning með Akranesinu og eitthvað af ýsu sem fór á fiskmarkaðinn.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum -eða Binni í Vinnslustöðinni eins og flestir þekkja hann- segir að í hans huga sé ljóst að Þorlákshöfn búi yfir miklum framtíðartækifærum. „Ég bý svo vel að þekkja ágætlega til í Þorlákshöfn. Þegar ég var þar, fyrir rúmum 20 árum, var mikið rætt um útflutningshöfn þar. Það gleður mig mikið að sjá hve mjög tilkoma Smyril Line hefur fært höfninni og fyrirtækjum ný tækifæri. Við hér hjá Vinnslustöðinni höfum nýtt okkur þjónustu þeirra þó nokkuð frá því að þeir hófu siglingar til Þorlákshafnar, aðallega með ferskan fisk. „Binni segir að mest hafi þeir flutt heilan karfa á markaði í Þýskalandi og Frakklandi í gegnum Þorlákhöfn en því til viðbótar talsvert af ferskum afurðum. „Landanir báta í Eyjum tengjast heilmikið skipasiglingum frá Eyjum til Evrópu. Það sama mun gilda um siglingar frá Þorlákshöfn. Aukin tíðni siglinga frá Íslandi til Evrópu hefur mikla þýðingu fyrir sölu fersks fisks þannig að það kæmi mér ekki á óvart þótt höfnin í Þorlákshöfn fái aukið vægi eftir því sem meira verður í boði af flutningsleiðum þar í gegn.“ 

Binni þekkir það vel hve sterka stöðu Þorlákshöfn hafði í bolfiskútgerð áður. Hann telur líklegt að útgerð þar muni á ný ná fyrri styrk og ef til vill hærri hæðum en áður.  „Þorlákshöfn er vel í ,,sveit sett“ sem mætti orða á annan veg, vel til ,,sjávar sett“. Nálægð við höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöllinn skiptir þar miklu en ekki síður styttri siglingartími til Evrópu. Það kæmi mér ekki á óvart að útgerð myndi eflast hratt í Þorlákshöfn enda skiptir aðgengi að markaði öllu fyrir matvælafyrirtæki í ferskvöru eins og útgerðir í raun eru. Svo því sé haldið til haga, þá held ég að styrkur Vestmannaeyja sem útgerðarstaðar felist einnig í viðkomu flutningaskipa hér. Hver klukkutími í siglingu með ferskan fisk, hvort heldur heilan eða afurðir, telur. Það sama gildir um Þorlákshöfn.

Eins og komið hefur fram eru nú til skoðunar umfangsmiklar áætlanir um fulleldi á laxi í Þorlákshöfn, allt að 40.000 tonn. Binni telur að slík umsvif gætu haft hvetjandi áhrif á bolfiskvinnslu í Þorlákshöfn og orðið enn frekari styrkur fyrir svæðið. „Öflugt atvinnulíf á einu sviði, t.d. flutningum, skapar skilyrði fyrir annan rekstur. Gnægð af heitu og köldu vatni í Þorlákshöfn, góðar hagkvæmar byggingalóðir auk nálægðar við höfn skapa skilyrði fyrir fiskeldi og aðra starfssemi. Í eðli sínu er fiskeldi nátengd útgerð og fiskvinnslu, þ.a. þetta mun styrkja hvert annað. Ég sé mörg tækifæri fyrir Þorlákshöfn til að eflast.“