Einstakur árangur á haustmóti á Selfossi

Liðna helgi sendi Fimleikadeild Þórs frá sér 3 lið til keppni á haustmóti á Selfossi. Mikil tilhlökkun var hjá iðkendum fyrir keppni enda mikill undirbúningur sem fer í slíka vinnu.

Laugardaginn 12. nóvember mættu stúlkurnar í 4. flokki hópfimi eldsnemma til leiks þar sem þær kepptu á móti 26 liðum og var mikil og hörð keppni milli liða. 4. flokkur hópfimi sem samanstendur af stúlkum fæddum 2012 og 2013 stóðu sig gríðarlega vel og sýndu miklar framfarir sem skilaði sér í 5. sæti í gólfæfingum og þar af leiðandi 9. sæti í samanlögðum stigum af 27 liðum sem er virkilega flottur árangur. Á haustmóti í hópfimi er liðunum skipt upp í A, B og C deild þar sem liðin keppa eftir þeim deildum eftir áramót. Með glæsilegum æfingum á öllum áhöldum fengu stúlkurnar þann frábæra titil að lenda í A deild og verður afar skemmtilegt að fylgjast með þeim komandi ár þar sem þær eru sífellt að bæta sig sem ein liðsheild.

Í framhaldi héldu svo 2 lið til keppni sunnudaginn 13. nóvember þar sem keppt var í stökkfimi yngri. 4. flokkur mix sem samanstendur af stúlkum og drengjum fædd 2012 og 2013 stóðu sig með prýði þar sem þau kepptu á móti 13 liðum. Liðið sýndi miklar framfarir á öllum áhöldum sem skilaði þeim 4. sæti í samanlögðum stigum sem er frábær árangur og virkilega vel gert. Liðið er nýtt í flokki mix liða og verður spennandi að fylgjast með þeim vaxa og halda áfram að bæta sig í fimleikum. 

3. flokkur mix sem samanstendur af stúlkum og drengjum fædd 2010 og 2011 kepptu einnig á tilteknu móti og stóðu þau sig gríðarlega vel þar sem þau kepptu á móti 13 liðum. Liðið gerði sér lítið fyrir og sigruðu gólfæfingar með hæstu einkunn á mótinu og höfnuðu í 3. sæti í æfingum á fíbergólfi. Með þessum flotta árangri tókst þeim að sigra 13 lið sem skráðu sig til keppni og enduðu í 1. sæti í samanlögðum stigum. Stórglæsilegur árangur sem skilaði sér í mikilli gleði hjá Þórsurum. Liðið er einnig nýtt í flokki mix liða en þau eiga framtíðina fyrir sér og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Árangur sem slíkur þessa helgina er virkilega flottur og er Fimleikadeild Þórs einstaklega stolt af þessum flottu ungu fimleikakrökkum sem eiga framtíðina fyrir sér. Fimleikadeildin óskar öllum iðkendum innilega til hamingju með frábæran árangur á Selfossi. Næstu helgi fer svo fram haustmót hjá 3. flokki hópfimi og 2. flokki stökkfimi á Egilsstöðum þar sem verður spennandi að fylgjast með. Við óskum þeim góðs gengis.

Fimleikadeild Þórs