Hagsmunum samfélagsins verður ekki fórnað

Um leið og undirritaðir bæjarfulltrúar D-lista hvetja bæjarbúa til að mæta á kynningarfund Heidelberg viljum við ítreka núverandi afstöðu okkar til verkefnisins.

Eins og komið hefur fram teljum við að svo stöddu ekki ástæðu til að hverfa frá samtali við fyrirtækið Heidelberg um uppsetningu á framleiðslufyrirtæki sem framleiða mun umhverfisvæn íblöndunarefni til steypuframleiðslu, enda verkefnið enn á undirbúningsstigi. Það fyrirtæki eins og önnur eru velkomin svo fremi sem starfsemi þeirra falli að heildarhagsmunum samfélags okkar.

Það merkir þar með að við áskiljum okkur á öllum tíma rétt til að gæta hagsmuna samfélagsins. Enn hafa engar ákvarðanir verið teknar og málið eingöngu til skoðunar. Í því samhengi minnum við á eftirfarandi kröfur sem við bókuðum á formlegum fundi bæjarstjórnar í ágúst:

Íbúakosning gæti orðið góð niðurstaða

1. Þegar fyrir liggur með hvaða hætti starfsemin verður, svo sem flutningur á efni, útlit bygginga og fl. verður málið kynnt fyrir íbúum og eftir atvikum haldin íbúakosning um framgang þess.

Hagsmunir samfélagsins verða tryggðir

2. Við áskiljum okkur fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins. Verði verkefnið á einhverjum tímapunkti metið skaðlegt fyrir heildar hagsmuni samfélagsins er því sjálf hætt.

Ekki inn á þjóðvegina

3. Ekki kemur til greina að efni í því magni sem um hefur verið rætt verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu eins og það er núna. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum.

Ríkar kröfur til útlits og eðlis mannvirkja – hefðbundin iðnaðarhús koma ekki til greina

4. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefin af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina. Til að tryggja höfum við skipað faghóp með arkitekt, verkfræðing, umhverfissálfræðingi og fl. sem tryggja skulu að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samafélagið en ekki skaða það.

Engin afsláttur gefinn

5. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefin af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama. Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

Á þessum forsendum vinnum við málið áfram af virðingu fyrir þeim sem að þvi koma og samfélaginu öllu.

Gestur Þór Kristjánsson

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir

Grétar Ingi Erlendsson

Erla Sif Markúsdóttir