Áhugaverður fundur

Í vikunni var haldinn ákaflega fróðlegur fundur um fyrirhuguð plön Heidelberg að byggja hér verksmiðju. Fundurinn var haldinn af hálfu fyrirtækisins og var þetta ekki á vegum sveitarfélagsins líkt og sumir virðast halda. Fulltrúar fyrirtækisins mættu til að kynna verkefnið sem er á frumstigi og svara spurningum fólks sem mætti á fundinn.

Fundurinn var vel sóttur og gaman að sjá hve mikill áhugi hjá fólki er um ný möguleg verkefni sem hafa áhuga á að koma í sveitarfélagið.

Þetta fór vel fram en mér þykir nauðsynlegt að benda á nokkra hluti í ljósi þess að hér er lítill hópur virkra í athugasemdum sem hafa verið með verkefnið á heilanum síðustu mánuði og lýsir fundinum með allt öðru ljósi en raunverulega var.

Eitt af því sem haldið hefur verið fram er að mikill meirihluti fólks sem mætti á fundinn hafi verið á móti þessu verkefni. Hið rétta er að það var ákveðinn hópur, sá sami er virðist tjá sig mest um málið á íbúasíðunni sem voru á móti þessu verkefni. Restin af fólkinu sem mætt var vildi kynna sér málin betur, enda mikið um rangtúlkanir þegar farnar í loftið. Mín upplifun af fundinum var sú að langflestir voru mættir þarna með opinn hug en ekki endilega seldir á verkefnið. 

Fullyrt er af hálfu þessa fólks að af verkefninu muni verða óeðlilega mikil umferð. Þetta atriði er ennþá í vinnslu og verið að skoða aðrar leiðir en vegi sem almenn umferð ekur um. Til skoðunar eru fyrir utan það að aka á almennum vegum; annars vegar að gera færiband sem flytur efnið frá fjalli niður að verksmiðju, og hinsvegar að leggja námuveg sem vörubílar (sem stefnt er að því að verði vistvænir) muni aka eftir utan almennra vega.

Talað er um útlit verksmiðju sem lýti á samfélaginu. Staðreyndin er hinsvegar sú að ekki er búið að hanna byggingar né annað í þessu verkefni. Ég geri ráð fyrir að flestir hafi ferðast út fyrir landsteinana og farið í sveitarfélög og borgir sem hýsa stórar verksmiðjur. Ég get fyrir mitt leiti sagt að vera verksmiðju hefur aldrei breytt mínum ferðaplönum og geta þessi mannvirki oft verið prýðileg og þurfa hvorki að skemma útlit né umhverfi svæðisins þar sem þær eru byggðar.  Það verður þvi að að þykja ansi sérstakt að ætla sér að koma með fullyrðingar um að verksmiðjan verði lýti áður en hönnun liggur fyrir. Stórt er ekki það sama og ljótt.

Einn mikilvægur punktur sem vert er að skoða frekar og bíð ég eftir því að sjá tölur í því samhengi eru tekjur sem sveitarfélagið mun fá verði af verkefninu. En það er auðvitað þáttur sem verður að hafa í huga þegar verkefnið er vegið og metið. Ef eitthvað er að marka orð talsmanna fyrirtækisins þá eru þar um að ræða töluverðar tekjur bara í formi fasteignagjalda og hafnargjalda. Umræða um störf per fermetra nær auðvitað engri átt enda er það engin forsenda fyrir starfsemi fyrirtækja hér að þau uppfylli ákveðna hlutfallssstuðla á fermetra.

Það ber svo að nefna að fram kom á fundinum líkt og tekið hefur verið fram áður að það er stefnt að íbúakosningu, fari svo að fyrirtækið og sveitarfélagið sjái fram á að verkefnið nái fram að ganga. Fyrir áframhaldi eru margir varnaglar og treysti ég bæjarstjórn vel til að halda hagsmunum sveitarfélagsins og íbúum vel á lofti.  Það er því í besta falli frekar skrítin nálgun hjá fólki að fara af stað með undirskriftasöfnun sem snýr að því að mótmæla þessu verkefni áður en nokkur álitamál hafa verið til lykta leidd. 

Ég vil enda á því að biðja fólk um að anda með nefinu, skoðum þetta mál betur, áður en við stökkvum á einhvern vagn, það er hin ábyrga afstaða. 

Með vinsemd og virðingu

Ólafur Hannesson