Upplýsingatækni í skólastarfinu

Á síðasta ári og þessu ári ákvað sveitarfélagið í samvinnu við skólann að auka framlög á fjárhagsáætlun skólans vegna verkefnis um eflingu upplýsingatækni í skólastarfinu. Á síðasta ári voru stór sjónvörp sett upp í kennslustofur í 6. – 10. bekk og allir kennarar fengu nýjar fartölvur. Þá var tækjakostur nemenda einnig bættur til muna. Nemendur í yngri bekkjum hafa iPad til afnota í kennslustundum en u.þ.b. einn iPad er á hverja tvo nemendur. Þá eru til fjölmargar Chromebook fartölvur á bókasafni sem kennarar á yngsta- og miðstigi geta pantað fyrir sína nemendur. Nemendur í 6. og 7.bekk deila síðan með sér einu bekkjarsetti af fartölvum.

Nú í byrjun janúar var síðan enn eitt stórt skref stigið í átt að eflingu upplýsingatækninnar í skólanum en nú eru allir nemendur í 8. – 10. bekk komnir með sitt einkatæki að láni frá skólanum. Gerður verður samningur við nemendur og forráðamenn um að ef nemendur uppfylla skilyrði um meðferð og umgengni geti þeir tekið tölvuna með sér heim til að vinna að skólaverkefnum

Samfara þessu verkefni hefur endurmenntun kennara snúið að miklu leyti að upplýsingatækni í skólastarfi og kennarar hafa verið áhugasamir um verkefnið en nú þegar hefur verkefnið leitt til aukinnar fjölbreytni í kennsluháttum. Ingvar Jónsson kennari hefur verið verkefnastjóri upplýsingatækni og hefur hann sinnt innleiðingu, kennsluráðgjöf, innkaupum o.fl.

Við í skólanum erum stolt af framgangi þessa verkefnis og fullviss um að þetta verkefni geti orðið liður í því að efla enn frekar nám og kennslu við skólann okkar.

Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri