Hafnarfréttum barst eftirfarandi yfirlýsing frá Kirkju Sjöunda dags aðventista:
,,Í gær var haft samband við okkur varðandi umræðu sem fer nú fram á Facebook-síðu Þorlákshafnar þar sem einstaklingur sem er meðlimur Kirkjunnar deilir skjali til íbúa með efni sem hann hefur sett saman um Kirkjuna og söfnuðinn. Af því tilefni vill Kirkja Sjöunda dags aðventista senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu og biðjum um að hún verði birt í ykkar miðli:
Jörðin hefur verið í eigu safnaðarins um áratuga skeið og má rekja söguna allt aftur til ársins 1936 en þá hóf Olav Johan Olsen að safna fé fyrir unglingaskóla fyrir söfnuðinn. Það var svo árið 1947 að jörðin Vindheimar í Ölfusi var keypt undir skólann en það er jörðin sem um ræðir.
Í landi Breiðabólstaðar standa fjöllin Litla-Sandfell og Lambafell. Þar eru skilgreindar námur í aðalskipulagi Ölfuss og hefur námustarfsemi farið fram í Litla-Sandfelli frá árinu 1965 og efni þegar verið sótt í fjóra mismunandi staði fjallsins.
Stjórn safnaðarins líst í öllum meginatriðum vel á verkefnið. Rétt er að halda því til haga að Kirkja sjöunda dags aðventista er á engan hátt aðili að áformum um fyrirhugaða efnistöku eða uppbyggingu sementsverksmiðju. Kirkjan hefur gert samkomulag við Eden Mining um námuréttindi í Litla-Sandfelli, en hefur að öðru leyti ekki beinna hagsmuna að gæta. Við vinnslu úr námunni skiptir það söfnuðinn hins vegar máli að ávinningurinn sé meiri en aðeins fjárhagslegur fyrir söfnuðinn. Náman hefur í fyrirhuguðu fyrirkomulagi bæði í för með sér atvinnusköpun í sveitarfélaginu auk mikils sparnaðar á kolefnislosun í byggingariðnaði og þar með afleidd góð áhrif á heimsbyggðina alla. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum verður sparnaðurinn af kolefnislosun við nýtingu efnis úr námunni hið minnsta á pari við það sem allur íslenski bílaflotinn veldur.
Upphaflegur samningur við Eden Mining, sem er leigutakinn, var gerður í maí 2009 um efnistöku og rannsóknir sem meðal annars hafa falist í því hvort hægt sé að nýta efni móberg við sementsframleiðslu í stað flugösku og þá sem jákvæðari kost út frá umhverfisáhrifum. Nýr samningur um námuréttindi var gerður í janúar sl. Einstök samningsatriði eru trúnaðarmál samningsaðila líkt og almennt á við um slíka samninga en með honum hefur Eden Mining leyfi til efnistöku úr námunni gegn gjaldi. Innan safnaðarins hafa heyrst efasemdaraddir nokkurra safnaðarmeðlima vegna samningsins, og þá helst um fyrirkomulagið en ekki sjálfa efnistökuna. Öll stjórn safnaðarins stendur hins vegar heilshugar að baki samningnum en gerðar hafa verið útttektir á ferlinu á ýmsum stigum, m.a. af æðri stofnunum innan kirkju SDA og óháðum aðilum.
Samningurinn var gerður með hag safnaðarins og almennings að leiðarljósi. Samningurinn var því ígrundaður og vandað til allra verka. Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að gerðir samningar eru að sjálfsögðu bindandi hefur ekki komið til tals annað en að standa við samninginn.“
Kirkja Sjöunda dags aðventista