Metfjöldi umsókna á Fjárfestahátíð á Siglufirði

Þrjátíu verkefni sóttu um á Fjárfestahátíð Norðanáttar sem fer fram þann 29. mars næstkomandi en umsóknarfrestur rann nú um miðjan janúar. 

Þetta er í annað sinn sem Norðanátt heldur slíka hátíð á Siglufirði og verður tilkynnt 15. febrúar nk. hvaða sprota- og vaxtarfyrirtæki munu stíga á stokk fyrir fullum sal fjárfesta í mars.

Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar segir fjárfestahátíðina mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja kynna sínar hugmyndir fyrir fjárfestum, þar með sé einnig verið að auka fjárfestingartækifæri á landsbyggðinni. Kjarnastarfsemi Norðanáttar snýr að svokölluðum FEW-nexus eða matur- orka- vatn og þau verkefni sem taka þátt snerta á þessum áherslum með einum eða öðrum hætti.

Stór tækifæri í atvinnuþróun á landsbyggðinni

“Verkefnin sem sækja um og taka þátt snerta öll á orkuskiptum, hringrásarhagkerfinu eða fullnýtingu auðlinda, en við leggjum mikinn fókus á að verkefni sem kynna á hátíðinni hjá okkur séu í takt við þessar áherslur”, segir Kolfinna.

,,Ástæðan er sú að þetta eru að okkar mati stóru tækifærin í atvinnuþróun fyrir landsbyggðina. Nýsköpun í kringum auðlindirnar okkar og hringrásarhagkerfis hugsun er nauðsynleg ef við ætlum að ná samkeppnisforskoti á Íslandi”. 

Færri komast að en vilja

,,Í fyrra vorum við að renna svolítið blint í sjóinn og vissum í raun ekkert hvernig myndi takast til, þ.e. hvort við myndum fá einhverja fjárfesta til að koma á Siglufjörð. Það varð svo að færri komust að en vildu og allir voru í skýjunum eftir þennan viðburð, frumkvöðlarnir, gestir hátíðarinnar, ráðherrar sem mættu og ekki síst teymið sem stóð að skipulagningu hennar”, segir Kolfinna. 

,,Nú erum við aðeins sjóaðri í þessu og höfum fínpússað margt varðandi skipulagningu og aðkomu að hátíðinni og fengum frábæra einstaklinga í ráðgjafahóp til að aðstoða okkur. Í hópnum sitja fjárfestar og sérfræðingar sem vinna með fjárfestum. Einnig höfum við skipað valnefnd sem fær það skemmtilega en erfiða hlutverk að velja þau sprota- og vaxtarfyrirtæki sem fá tækifærið að kynna verkefni sín á hátíðinni. Ástæðan fyrir því að teymið fór þessa leið var einfaldlega til að skilja markhópinn okkar betur og auka virði hátíðarinnar um leið.” 

Fjölbreytt nýsköpunarverkefni frá öllum landshlutum

,,Eins og ég nefndi þá var okkar fyrsta hátíð haldin fyrir ári síðan og við litum á að sú hátíð væri “pilot” verkefni. Til að sjá hvort þetta væri yfir höfuð hægt. Við byrjuðum á Norðurlandi og hátíðin gekk svakalega vel en okkar draumur hefur alltaf verið að vinna með öllum sem brenna fyrir nýsköpun og fólki með stórar hugmyndir”, segir Kolfinna.Mynd: Umsóknarhlutfall eftir landshlutum.

,,Í ár buðum við því öllum á landinu að taka þátt. Við funduðum með öllum landshlutasamtökunum og fengum þau til liðs við okkur að bera út boðskapinn hjá sínu fólki og það stóð ekki á sér. Með góðu samtali og markaðssetningu fengum við mjög góðar undirtektir og bárust 30 flottar umsóknir. Það er einnig gríðarlega ánægjulegt að sjá að umsóknir komu úr öllum landshlutum. Við erum mjög spennt að sjá hvaða verkefni verða valin og ekki síður spennt að taka á móti öllum þessu öfluga fólki á Siglufirði 29.mars 2023.”

Valnefnd Fjárfestahátíð Norðanáttar 2023

SIGURÐUR MARKÚSSON
Forstöðumaður nýsköpunardeildar á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði Landsvirkjunar.

MELKORKA SIGRÍÐUR MAGNÚSDÓTTIR
Meðstofnandi og eigandi Iceland Innovation Week


HREINN ÞÓR HAUKSSON
Framkvæmdastjóri viðskipta- og vöruþróunar hjá Íslenskum Verðbréfum


ÁSTA KRISTÍN SIGURJÓNSDÓTTIR
Framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans


SVEINN MARGEIRSSON
Framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brimi


KOLFINNA KRISTÍNARDÓTTIR
Verkefnastjóri hjá KLAK – Icelandic Startups