Varðandi yfirlýsingu stjórnar Kirkju sjöunda dags aðventista í Hafnarfréttum

Litla Sandfell

Akureyri, 30. janúar 2023

Þann 27. janúar sl. birti stjórn Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi (KSDA) yfirlýsingu í Hafnarfréttum. Yfirlýsingin er formleg viðbrögð stjórnar trúfélagsins við skrifum undirritaðs um rekstur námanna í Litla-Sandfelli og Lambafelli sem eru í eigu trúfélagsins en samningur KSDA við Eden Mining um nýtingu þessara náma virðist vera undirstaða fyrirhugaðra framkvæmda Heidelberg Materials í Þorlákshöfn. Athygli skal vakin á því að stjórn KSDA sem slík undirritar ekki bréfið heldur kemur hún fram í nafni kirkjunnar í heild.

Það er ýmislegt að athuga við yfirlýsingu stjórnar KSDA. Ástæðan fyrir því að undirritaður telur tilefni til að bregðast við henni opinberlega er sú að honum finnst að íbúar í Ölfusi eigi rétt á því að hafa sem greinilegastar upplýsingar í þessu máli, en því miður hefur stjórn KSDA hvorki veitt safnaðarmeðlimum (þ.e. meðlimum trúfélagsins) né íslensku samfélagi heildstæðar og réttar upplýsingar um málið. Verður hér því bent á sex helstu atriðin í yfirlýsingu KSDA sem virðast skjóta skökku við.

  1. „Kirkja sjöunda dags aðventista er á engan hátt aðili að áformum um fyrirhugaða efnistöku eða uppbyggingu sementsverksmiðju. Kirkjan hefur gert samkomulag við Eden Mining um námuréttindi í Litla-Sandfelli, en hefur að öðru leyti ekki beinna hagsmuna að gæta“.

KSDA gerði samning við Eden Mining þann 18. janúar 2022 sem ber yfirskriftina „Samningur um jarðefnatöku“. Það er því erfitt að sjá hvernig KSDA er ekki aðili að efnistökunni. Í samningnum er einnig minnst á Heidelberg í 3. grein þar sem tekið er fram að „ef námurétthafi [Eden Mining] gerir langtímasamning við Heidelberg Group eða annan aðila … um kaup á unnu efni úr námunum … framlengist gildistími samnings [frá 2037] til 31. desember 2051“.

Hér á stjórnin mögulega við að hún taki ekki þátt í fyrirhuguðum framkvæmdum sem framkvæmdaraðili. Það virðist þó skýrt að stjórn KSDA og Eden hafi ekki aðeins rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg í samningaviðræðum sínum, heldur að Heidelberg hafi einnig komið að þeim viðræðum á einhvern hátt. Ennfremur virðist augljóst að stjórn KSDA telur sig eiga hagsmuna að gæta í fyrirhuguðum framkvæmdum og málinu öllu. Þetta virðist skýrt í ljósi þess hvernig samningurinn var kynntur fyrir safnaðarmeðlimum í Kirkjufréttum (fréttabréfi trúfélagsins) þann 1. febrúar 2022 en ‏það var á eftirfarandi hátt:

„Fyrir tæpu ári síðan hófust viðræður milli Kirkjunnar á Íslandi og Eden Mining um möguleika á nýju verkefni varðandi námur okkar. Á þessum tíma hafa Kirkjan og Evrópudeildin (TED) unnið að málinu samkvæmt þagnarskyldu vegna viðkvæmra viðskipthagsmuna, en nú getur Kirkjan deilt nokkrum fréttum.

Eden Mining hefur unnið að verkefni í samvinnu við HeidelbergCement Group, þýskt fyrirtæki sem starfar í 50 löndum um allan heim. Heidelberg er stærsti birgir Evrópu á malarefni og annar stærsti sementsframleiðandi Evrópu. Verkefnið beinist að því að framleiða vistvænni sementsvöru sem er mögulegt með því að nýta steinefnin sem finnast í námunum á landi kirkjunnar. Með þessu samstarfi verður mölin hluti af aðfangakeðju Heidelbergs sem tryggir sanngjarna ávöxtun og langtíma tekjulind fyrir kirkjuna.

Kirkjan mun fá að lágmarki kr. 15.000.000 á ári þó engin möl sé tekin úr námunum. Þegar Heidelberg hefur lokið áreiðanleikakönnun sinni og fyrirhuguð verksmiðja þeirra í Þorlákshöfn er komin í framleiðslu, á árlegt magn af möl sem tekin er að aukast verulega.

Kirkjan hefur skrifað undir nýjan samning við Eden Mining sem kemur í stað allra fyrri samninga. Lengd nýja samningsins er 15 ár og rennur út 4 árum eftir dagsetningu fyrri Lambafellssamnings. Ef Heidelberg lýkur áreiðanleikakönnun sinni á næstu tveimur árum mun samningurinn sjálfkrafa tvöfaldast í 30 ár. Þetta gefur Heidelberg tækifæri til að afskrifa kostnað við byggingu verksmiðjunnar og viðhalda stöðugu framboði á efni fyrir vistvænt sement sitt.

Skilmálar hafa verið samdir fyrir hönd Kirkjunnar af samningslögfræðingum hjá Lex. Í þessu ferli hafa tekið þátt í lögfræðingar Kirkjunnar, Eden Mining og Heidelberg. Kirkjan hefur einnig fengið sérfræðiráðgjöf í gegnum þessar samningaviðræður til að tryggja að Kirkjan fái sanngjarnt verð og sanngjörn kjör.

Mögulega veitir þessi samningur ekki aðeins fjárhagslegt öryggi fyrir kirkjuna til lengri tíma litið. Hann opnar líka möguleika fyrir Kirkjuna okkar að geta fjármagnað boðunarstarf“.

  1. „Náman hefur í fyrirhuguðu fyrirkomulagi bæði í för með sér atvinnusköpun í sveitarfélaginu auk mikils sparnaðar á kolefnislosun í byggingariðnaði og þar með afleidd góð áhrif á heimsbyggðina alla. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum verður sparnaðurinn af kolefnislosun við nýtingu efnis úr námunni hið minnsta á pari við það sem allur íslenski bílaflotinn veldur“.

Það er grundvallarregla hjá KSDA að blanda sér ekki í stjórnmál (nema í undantekningaratvikum) en hér tekur stjórn KSDA afstöðu í umdeildu pólitísku máli í íslensku sveitarfélagi. Hvað varðar meintar upplýsingar um lækkun kolefnislosunar ‏hefur stjórnin ekki deilt þeim með safnaðarmeðlimum og því er erfitt fyrir þá að leggja mat á umhverfisleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda.

  1. „Upphaflegur samningur við Eden Mining, sem er leigutakinn, var gerður í maí 2009 um efnistöku og rannsóknir sem meðal annars hafa falist í því hvort hægt sé að nýta efni] móberg við sementsframleiðslu í stað flugösku og þá sem jákvæðari kost út frá umhverfisáhrifum“.

Umræddum samningi var þinglýst hjá Sýslumanni Suðurlands og hann er því aðgengilegur almenningi (landnúmer 171690, jarðarheiti Breiðabólstaður, skjal nr. 1882, móttekið til

þinglýsingar 1. júlí 2009). Í samningnum er tekið fram að námurétthafi (Eden Mining) beri „kostnað af allri rannsóknarvinnu“ (4. gr.), beri að haga öllum „rannsóknum þannig að sem minnstu jarðraski valdi“ (5 gr.) og að „við lok samningstíma“ skuli námurétthafi „gefa eiganda kost á að kaupa … rannsóknarniðurstöður, sem tengjast námuvinnslunni“. Ekki er kveðið á um að samningurinn sé til þess að rannsóknir séu gerðar eða hverju þær gætu tengst í smáatriðum. Það getur verið að Eden Mining hafi samið með rannsóknir á flugösku og móbergi í huga. Undirritaður hefur hinsvegar engin gögn fundið í opinberum skýrslum og fréttabréfum KSDA sem sýna fram á að samningurinn hafi verið gerður með slíkar rannsóknir í huga eða að Eden Mining hafi gefið KSDA kost á að kaupa rannsóknarniðurstöður sínar. Rannsóknir hafa farið fram (sjá t.d. Morgunblaðið, 30 mars 2022, bls. 1) en virðast aldrei hafa verið tilkynntar safnaðarmeðlimum KSDA.

  1. „Nýr samningur um námuréttindi var gerður í janúar sl. Einstök samningsatriði eru trúnaðarmál samningsaðila líkt og almennt á við um slíka samninga“.

Nýr samningur var gerður þann 18. janúar 2022. Samningaviðræðunum var haldið leyndum fyrir safnaðarmeðlimum og þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeim var tilkynnt að skrifað hafði verið undir nýjan samning við Eden Mining. „Einstök samningsatriði“ eru ekki trúnaðarmál. Allar fjárhagslegar upplýsingar samningsins eru leynilegar (fyrir utan 15 milljóna króna árlegu lágmarksborgunina sem Eden þarf að greiða burtséð frá magni efnistöku). Það getur verið að slík viðskiptaleynd þekkist á almennum markaði en þetta er einsdæmi í sögu trúfélagsins og gengur í berhögg við viðskiptastefnu aðventista sem kallar eftir gagnsæi gagnvart safnaðarmeðlimum.

  1. „Innan safnaðarins hafa heyrst efasemdaraddir nokkurra safnaðarmeðlima vegna samningsins“.

Rétt rúmum mánuði eftir að samningurinn var kynntur fyrir safnaðarmeðlimum var stjórn KSDA afhentur undirskriftalisti með 61 undirskrift þar sem kallað var eftir opnum upplýsingafundi um námumálið. Virkir safnaðarmeðlimir eru á bilinu 100–200 þannig að um rúmur þriðjungur virkra meðlima vildi meiri upplýsingar. Stjórn KSDA hélt upplýsingafund þann 24. maí 2022 en upplýsingarnar þóttu svo rýrar að fjórar af fimm safnaðarstjórnum kölluðu eftir öðrum og betri upplýsingafundi. Stjórn trúfélagsins ákvað að halda ekki slíkan fund og lagði tillögu fyrir aðalfund 2022 þess efnis að allri umræðu um málið yrði hætt. Tillögunni var vísað frá.

  1. Þar sem „gerðir samningar eru að sjálfsögðu bindandi hefur ekki komið til tals annað en að standa við samninginn“.

Gerðir samningar verða að vera löglegir til að teljast bindandi. Lög KSDA kveða á um að stjórn KSDA hafi ekki rétt til að selja eða kaupa eignir án samþykkis aðalfundar KSDA sem haldinn er á fjögurra ára fresti en þann fund sitja tilnefndir fulltrúar allra safnaða. Í 18. grein segir:

„Ákvörðun um kaup eða sölu á eignum Kirkjunnar sem ekki getur talist hluti af eðlilegri starfsemi hennar skal taka á reglulegum aðalfundi Kirkjunnar eða auka aðalfundi, að höfðu samráði við Deildina“.

Stjórn KSDA hefur sagt að 18. grein eigi ekki við um námusamninga því um leigu sé að ræða en ekki sölu. En hér er ólíku saman að jafna. Þegar eign er leigð ber leigjanda að skila eigninni í óbreyttri mynd. En þannig er því auðvitað ekki farið með leigu á námum. Jarðefnið sem er tekið úr námunni er margfalt verðmætara en allar fasteignir trúfélagsins samanlagðar og því er hér um það stóra fjárhagslega ákvörðun á sölu eigna að ræða að málið hefði átt að vera lagt fyrir aðalfund. Það var ekki gert og því er vel hægt að færa rök fyrir því að lög trúfélagsins hafi verið brotin þegar skrifað var undir samninginn. Slíkur samningur getur vart kallað á annað en riftun.

Jón Hjörleifur Stefánsson.