Sveitarfélagið Ölfus með lægsta fasteignaskatt allra sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins

Sveitarfélagið Ölfus er með lægsta fasteignaskatt allra sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun og viðbótargreiningu sem birt var á vefnum akranes.is og tekur Ölfus þar með fyrsta sætið af Vestmannaeyjum.  Í greiningunni koma fram upplýsingar um fasteignamat og fasteignagjöld og þá liði sem fasteignagjaldið samanstendur af, það er fasteignaskattur, lóðarleigu, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald.

Munurinn á milli nágrannasveitarfélaga er þó nokkur.  Þannig myndu eigendur viðmiðunarfasteignar Byggðastofnunar greiða 121.128 kr. í fasteignaskatt fyrir þá eign í Sveitarfélaginu Ölfusi, 167.823 kr. á Selfossi og 224.189 kr. í Hveragerði.  Munurinn milli fasteignaskatts í Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerði er því 103.061 kr. á yfirstandandi ári. 

Sé litið til heildar áætlaðara fasteignagjalda er Sveitarfélagið Ölfus í 5. sæti þeirra 19 sveitarfélaga sem samanburður Byggðastofnunar nær til, með heildargjöld upp á 389.154, Hveragerði í 10. sæti 424.189 kr. og Selfoss 17. sæti með heildargjöld að upphæð 498.818 kr. Munurinn á milli heildar áætlaðra fasteignagjalda í Sveitarfélaginu Ölfusi og Árborg er því 109.664 kr. á yfirstandandi ári.

Í fréttatilkynningu sem fylgdi fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfus fyrir árið 2023 sagði: „Fasteignaskattshlutfall er lækkað um 24,2% á næsta ári og hefur það þar með verið lækkað um 38% á fimm árum. Til grundvallar þessa trausta reksturs liggja stærstu einkaframkvæmdir atvinnulífsins hér á landi í sögunni þar sem fyrirhugað er að verja hátt í 200 milljörðum til verðmætasköpunar og fjölgun starfa á næstu árum.“  Er þarna vísað til þess að forsenda þess að hægt hefur verið að draga úr álögum á íbúa sé sú mikla verðmætasköpun sem fylgt hefur nýjum fyrirtækjum og sterk staða þeirra sem fyrir eru.