Vilja samstarf við Ölfus um kaup á hitaveitu

Orkufyrirtækið Reykjavík Geothermal (RG) og spænski innviðasjóðurinn Serena Industrial Parners hafa óskað eftir samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus um kaup á Hitaveitu Ölfuss sem í dag er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. 

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að í minnisblaði sem fylgdi erindinu og var lagt fyrir á fundi bæjarráðs 2. febrúar komi fram að hugmynd RG sé að Ölfus komi að verkefninu sem eigandi jarðhitaréttinda á svæðinu og mögulega sem meðeigandi í hitaveitunni. Þannig hafi verið nefnt að hitaveitan myndi greiða leigu fyrir afnot af auðlindinni og þær greiðslur, í stað þess að vera greiddar út, notaðar af Ölfusi til að greiða jafnt og þétt fyrir sitt eignarhald. Þannig þyrfti Ölfus ekki að leggja út fé heldur myndi eignast sinn hlut skuldlausan að einhverjum tíma liðnum. „Við munum núna á næstu dögum og vikum skoða þetta og meta“ segir Elliði. 

Í fyrrgreindu minnisblaði kemur fram að áhugi RG sé fyrst og fremst tilkominn af því að fyrirtækið sé nú þegar að vinna að tveimur orkuverkefnum í sveitarfélaginu, annars vegar verkefni sem hefur vinnuheitið Ölfusvirkjun og hins vegar stærra verkefni sem hefur vinnuheitið Bolölduvirkjun. RG hefur áður staðfest að sveitarfélagið hafi forgang að allri orku sem frá þessum virkjunum mun koma, hvort heldur sé heitt vatn eða rafmagn.

Elliði segir að erindinu hafi verið vel tekið og kallað eftir minnisblaði þar sem tilgreindu samstarfi væri lýst nánar.  „Við vitum sem er að aðgengi að orku er ein af forsendum sóknar atvinnulífsins hér og auðvitað fosenda byggðar.  Samhliða því sem verið er að ráðast í risavaxin atvinnuverkefni er byggð að stækka og samfélagið að eflast. Innviðir eins og orkumannvirki þurfa að vaxa samhliða. Það er því mikilvægt að við fylgjum þessum málum eftir og tryggjum að hreyfing sé á því sem tengist orkuvinnslu.  Þessi veita er nokkuð öflug.  Heildarvinnsla Þorlákshafnar- og Ölfusveitu á árunum 1992-2021 er orðin 30 milljónir rúmmetrar og líklegt má telja að hægt sé að nýta auðlindina enn betur“, segir Elliði.