Vel sóttur íbúafundur um skóla- og frístundamál

Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú að endurskoðun skólastefnu sveitarfélagsins. Í gær var efnt til íbúafundar þar sem rætt var um stöðu skóla- og frístundamála í sveitarfélaginu, þar með talið styrkleika þess, veikleika, áskoranir, sóknarfæri, skólaskipan og framtíðarsýn.

Vinna við endurskoðunina hófst síðastliðið vor með skipan stýrihóps sem leitt hefur vinnu við endurskoðunina. Til ráðgjafar var ráðinn Ingvar Sigurgeirsson, kennslu- og menntunarfræðingur.

Allt starf hópsins hefur verið unnið út frá mikilvægi þess að sjónarmið sem flestra birtist í stefnunni þannig að hún verði leiðarljós í málaflokknum til nánustu framtíðar. Nú þegar hafa verið haldnir fundir með starfsfólki skólanna sem og skólaþing nemenda í því skyni að safna upplýsingum og kynnast viðhorfum þeirra.

Fundurinn í gær var afar vel sóttur og góður rómur gerður í því er lítur að skólunum okkar. Þeim sem hafa áhuga á að setja mark sitt á stefnuna eða afla sér nánari upplýsinga um gerð hennar er bent á að hafa samband við Guðlaugu Einarsdóttur, verkefnastjóra, með tölvupósti á gudlaug@olfus.is.