Fékk hugmyndina út frá lagalista á Spotify

Önnu Margréti Káradóttur eða Önnu Möggu þarf vart að kynna. Hún er söng- og leikkona, klarinettleikari og almennur gleðigjafi, ein af dætrum Þorlákshafnar. Hún er nú að fara af stað með nýja þætti á Rás 2 sem nefnast Tíðarandinn og verður á dagskrá alla sunnudaga í mars frá kl. 11 til hádegisfrétta. Blaðamaður Hafnarfrétta heyrði í Önnu Möggu og bað hana að segja frá tilurð og efnistökum þáttanna.

,,Ég fékk hugmyndina út frá lagalista á Spotify. Var að fylgja lagalista með lögum sem urðu tvítug fyrir einhverjum árum. Ég ákvað að þróa hugmyndina og gera hana stærri. Taka fleiri ár og skoða tíðarandann. Ég tek fyrir lögin sem verða tvítug, þrítug, fertug og fimmtug á þessu ári, 1973, 1983, 1993 og 2003. Ég segi frá því sem var að gerast í þjóðfélaginu, hver var forseti, hver var fegurðardrottning, hver fór í Júró, hver var heitasti skemmtistaðurinn o.s.frv.“

Fyrsti þátturinn fór í loftið í gær og þá tók Anna Magga fyrir árið 1973 og fjallaði um lög sem verða fimmtug á árinu.

,,Ég vel fjölbreytt lög og fróðleiksmolar fylgja öllum lögunum. Ég passa líka upp á hlutföll, hef bæði íslensk og erlend lög og passa kynjahlutföllin. Það varð auðveldara eftir því sem nær dregur í tíma að passa upp á það sem sýnir bara hvað samfélagið er að breytast sem er geggjað. Fleiri að taka pláss“ segir Anna Magga. Það verður skemmtilegt að hlusta næstu sunnudaga.