Gallerí undir stiganum – Píeta samtökin njóta góðs af verkum Lilju Margrétar!

Næstkomandi miðvikudag kl. 17 opnar ný sýning í galleríinu en að þessu sinni er það Lilja Margrét Sigurðardóttir sem sýnir verk sín. 

Lilja Margrét fæddist árið 1997 og er uppalin í Þorlákshöfn, hún er sjálflærð að mestu og hefur einungis tekið eitt námskeið í teikningu eftir að myndlistarnámi í grunnskóla lauk. Lilja hefur alltaf elskað að teikna, hún fékk m.a.s. vinkonur sínar til að teikna með sér og segist einnig hafa fengið mikla hvatningu frá móður sinni. 

Lilja er lífefna- og sameindalíffræðingur og starfar við gæðastjórnun á líftæknilyfjum en hún getur vel hugsað sér að bæta við sig diplómu í myndlist í framtíðinni. 

Lilja Margrét notar blýanta, kol og stundum akrýlmálningu við listaverkin og eru flestar myndirnar á sýningunni gerðar eftir ljósmyndum af vinkonum hennar, Sesselju Dan og Ásgerði. 

Verkin á sýningunni eru til sölu en ágóði af sölunni rennur til Píeta samtakanna.