,,Ekkert skiptir máli nema náttúran“ – Björg Guðmundsdóttir er listamaður maímánaðar í Galleríi undir stiganum

Listakonan Björg Guðmundsdóttir úr Þorlákshöfn opnaði sýningu í Galleríi undir stiganum í dag. Um innsetningu er að ræða þar sem Björg sýnir ferlið sem hún notar til að koma hugmyndum sínum á striga/pappír og eru þetta bæði akrýl- og vatnslitamyndir. Sjá má hluta af vinnustofu hennar og þau tæki og efnivið sem hún notar til listsköpunar á sýningunni.

Björg lærði fata- og textílhönnun í Listaháskóla Íslands en hefur málað síðan hún man eftir sér. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar og einnig tekið þátt í samsýningum og listviðburðum af ýmsu tagi, til að mynda sviðs- og búningahönnun í Borgarleikhúsinu og samsýningum í Listasafni Reykjavíkur. Björg hefur einnig unnið til verðlauna og viðurkenninga fyrir listsköpun sína.

,,Þetta er svona innlit í vinnuferlið. Ég bjó í 20 ár í 101 í gamla Vesturbænum og að vera í þessu borgarlandslagi, einhvern veginn heimsyfirráð eða dauði stemning, þú veist, og helst að flytja til útlanda af því Ísland er svo lítið. Ég fann mig einhvern veginn aldrei og svo kom ég hingað, flutti hingað og horfði á náttúruna og ég bara: „Vá, ekkert skiptir máli nema náttúran.“ Það er alltaf verið að segja manni að allt sé svo frábært erlendis en það er bara íslensk náttúra sem fær mann til að teikna. Þannig að ég fór að skoða aðferðir til þess að lýsa þessari tilfinningu fyrir náttúrunni. Þessi sýning er svona ferlið eins og það lítur út í augnablikinu og er svona rannsókn á því hvernig ég get komið þessu niður á blað, með hvaða efnivið og hvernig það lítur út. Ég hef verið bæði í tæknilegum rannsóknum og að búa til liti og líka gera milljón, trilljón skissur. Þetta byrjar á skissum og hugmyndavinnu, svo verður það aðeins mótaðra. Ég ímyndaði mér að fólk hefði gaman að því að að sjá það frekar en svona fullunnið lokaverk. Sjá hver leiðin er að því, af því að hún er heilmikil. Ég hef verið að skoða vatnsliti og æfa mig með þá en þeir eru dálítið erfiðir og margslungnir. Svo teikna ég líka og hef verið að mála með akrýl líka,“ segir Björg.

Sýningin er sölusýning og verður opin út maímánuð.