Ölfusingur mánaðarins er að þessu sinni Kolbrún Rakel Helgadóttir framkvæmdastjóri Ölfusborgar. Hún svaraði nokkrum laufléttum spurningum.
Fullt nafn: Kolbrún Rakel Helgadóttir, vinir mínir kalla mig Rakel
Aldur: Verð 48 ára í sumar
Fjölskylduhagir: Ég er gift Sindra Grétarssyni húsasmíðameistara og samtals eigum við 4 börn, Jón Bjarna (25), Sigrúnu Maggý (22), Sóldísi Söru (12) og Björgvin Breka (10)
Starf: Ég er hin eina sanna Soffía frænka í byggingafyrirtækinu Ölfusborg (m.ö.o. framkvæmdastjóri)
Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma? 122 vikur eða 2 ár og 4 mánuði
Hver er uppáhalds maturinn þinn? Ég elska alls konar mat en þegar ég fer út að borða vel ég mér oft carpaccio, tapas rétti, grillaða osta, salöt og þess háttar. Fersk ber og ávexti í desert – eða bara pizzu – er algjör sökker fyrir pizzum!
Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún? Já ég á mjög margar uppáhaldsbækur og sumar les ég aftur og aftur með nokkurra ára millibili. Twelve pillars eftir Jim Rohn trónir á toppnum og hún er mér svo hugleikin að ég hef meira að segja haldið námskeið sem voru byggð á þessari bók. Annars hlusta ég töluvert á Storytel þegar ég er að elda, púsla, keyra eða úti að ganga (og er ekki að tala í símann) og í síðustu viku hlustaði ég á tvær glæpasögur eftir Vivecu Sten, Helkulda og Daladrunga. Hugsa að ég eigi eftir að hlusta meira á hana því þessar tvær voru með góðar fléttur og héldu athygli minni allan tímann.
Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur? The Holiday. Horfi yfirleitt á hana á hverju ári.
Hvað hlustar þú mest á? Hressa tónlist þegar ég er í jeppaferðum og Storytel bækur eins og ég kom inná áður og jú oft líka Bítið á Bylgjunni, það er eiginlega eini kjaftaþátturinn sem ég nenni að hlusta á.
Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi? Heima hjá mér í Setberginu, opna út á pall og hlusta á fuglana eða ligg í pottinum og horfi á norðurljósin – geggjað!
Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf? “Hressa sig við” þarfnast aðeins skilgreiningar… Þar sem að ég er svona sæmilega vel virk manneskja sem vinnur mikið í skorpum og fer eiginlega alltaf aðeins yfir strikið, þá finnst mér gott að eiga smá hljóðan einverutíma inn á milli til að núllstilla mig. Ég á mikið af vinum og mér finnst allt þetta at mjög skemmtilegt og en svo þarf ég ákveðið mótvægi á milli til að keyra streituna og álagið niður og þá dunda mér við að púsla, leysa Sudoko, fer í nuddstólinn, jóga eða sinni garðvinnu, þó að garðurinn minn nái ekki alveg að endurspegla áhuga minn á blómum í núverandi standi en það stendur nú til bóta fljótlega🌻 Mér finnst líka gott að hitta vinkonu og fara í bíó, spila við fjölskylduna, fara í útilegur og jeppaferðir upp á hálendi með Sindra mínum. En ekki misskilja mig, ég elska bæði streitu og álag, bara í hæfilegu magni 😀
Hver er þín helsta fyrirmynd? Jim Rohn er klárlega sú manneskja sem hefur haft einna mest áhrif á mig í lífinu og opnað augu mín fyrir mörgu áhugaverðu í sambandi við samskipti, hugarfar og markmiðasetningu. Reglulega kemur svo fólk inn í líf mitt sem hefur áhrif og hvetur mig til að verða meira en ég er. Sumir stoppa stutt við og aðrir lengur.
Hvaða lag fær þig til að dansa? Það þarf ekki mikið til svo ég fari að dansa, öll popp, rokk og rave lög frá 1950 til dagsins í dag kveikja í mér, get dansað við Elvis Presley, Bítlana, Mötley Crue, Metallica, Nina Hagen, Grýlurnar og bara yfir í alls konar tónlist í dag þar sem ég veit ekki einu sinni hvað tónlistarfólkið heitir! Elska að dansa!
Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin? Já margoft, til dæmis þegar fólk er að hjálpa öðru fólki eða dýrum úr háska á TikTok eða þegar ástarsaga endar vel í bíómynd og jú þegar ég er með æskunum mínum og við hlæjum saman. Þetta er ótrúlegur hópur sem samanstendur af 16 stelpukonum sem voru saman í bekk í grunnskóla. Við höfum haldið hópinn “Saumó” í 36 ár þó að við höfum fullorðnast og leiðir okkar hafa legið í allar áttir. Reglulega (ca 6-8x á ári) hittumst við og kjöftum, borðum, skemmtum okkur, ferðumst saman, grátum og hlæjum saman – í þessum félagsskap renna mjöööög oft gleði hlátur tár!
Hvað elskar þú við Ölfus? Fólkið, enginn vafi! Fyrst þegar ég renndi hérna í Ölfusið til að skoða húsið sem ég keypti þá fannst mér eitthvað svo geggjað að keyra niður í áttina að Þorlákshöfn, keyra í gegnum sandana með melgresið á sitt hvora hendina – það var upplifum sem mér fannst geggjuð og ég hugsa oft um þegar ég keyri heim, það eru ekki margir svona staðir í boði. Svo eftir að ég flutti hingað þá rann upp fyrir mér ljós að þetta fólk sem býr hérna er algjörlega frábært! Við fjölskyldan höfum eignast fjölmarga vini og hér er virkilega gott að búa.
Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar? Frábær spurning! Ég vil mjög gjarnan sjá annað íþróttahús rísa. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni hef ég heyrt en núna er algjörlega rétti tíminn til að reisa þetta hús í okkar ört stækkandi bæjarfélagi. Mér finnst að við sem samfélag ættum að setja markið hátt og sameinast um að byggja þetta hús þannig að ungir sem aldnir geti nýtt það allt árið um kring án þess að eiga það á hættu að fjúka út á haf eða klofa húshæðarháa skafla þegar þannig stendur á. Krakkarnir í knattspyrnunni (jú og meistarflokkurinn líka) gætu stundað sína íþrótt á viðeigandi undirlagi og þá myndi losna um tíma í þróttahúsinu fyrir körfuna og badminton og fleiri. Svo gætum við sett góða gúmmí-hlaupabraut utan við gerfigrasið og þá gætu foreldrarnir með barnavagnana og eldri borgararnir og í raun allir sem vildu gætu komið í skjól og gengið eða hlaupið hring eftir hring þegar veðrið hagar sér þannig að maður kemst varla milli húsa! Jú og svo væri ég til í að sjá eins og eina góða byrjendaskíðabrekku hér innanbæjar einhvers staðar með toglyftu en annars er ég bara góð!
Hver er uppáhalds æskuminningin þín? Fara út í eina krónu á kvöldin með öllum krökkunum í hverfinu. Við fórum líka í hollý-hú, teygjutvist og verptum eggjum (já ég er svona gömul).
Hvert dreymir þig um að fara? Ég á enn nokkra staði eftir, t.d. Kúbu, Miklagljúfur, skíðasvæðið Aspen í Colorado, Tæland og Havaí!
Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega? Happiness is not something you postpone for the future; It is something you design for the present. Og í raun er mantran mín að hamingjan er akkúrat núna en ekki þegar ég næ einhverju markmiði. Það er ferðalagið sjálft á milli pósta og öll verkefnin sem ég leysi á leiðinni. Þannig læri ég og öðlast skilning og verð sú sem ég er þannig að það er alveg eins gott að hafa ferðalagið sjálft skemmtilegt og umkringja sig skemmtilegu fólki.
Hvað er framundan hjá þér? Já heyrðu, gaman að þú spyrð! Ég er nefnilega að undirbúa RISA sveitaball 23.september nk í Versölum með geggjaðri hljómsveit og það væri frábært ef þú og vinir þínir gætuð öll mætt á ballið og djammað með okkur! Hvet alla til að merkja hring utan um þessa dagsetningu í dagatalinu og taka kvöldið frá og svo þegar nær dregur koma alls kyns nauðsynlegar upplýsingar.
Eitthvað að lokum? Já ef ég hefði vitað hvað það byggi skemmtilegt fólk hérna þá hefði ég flutt hingað miklu fyrr!