Englar og menn í Strandarkirkju – lokatónleikar

Lokatónleikar tónlistarhátíðarinnar Englar og menn verða nk. sunnudag, 30. júlí í Strandarkirkju og hefjast kl. 14. Fram koma Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Arnheiður Eiríksdóttir messósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Sem í draumi“ og verða á ljúfu nótunum. Þar leiða þær Jóna, Arnheiður og Helga Bryndís áheyrendur í draumheima með flæðandi dúettum eftir Mendelssohn og ljúfum sönglögum eftir Mozart, Fauré og Donaudy í bland við íslenskar perlur. 

Miðaverð er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Arnheiður Eiríksdóttir lauk Burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Bachelorsgráðu með hæstu einkunn frá Listaháskólanum í Vín.  Þar stundaði hún einnig meistaranám þar til hún gerðist meðlimur í óperustúdíói Kölnaróperunnar í Þýskalandi 2018-2020. Arnheiður hefur verið fastráðin sem einsöngvari við Þjóðaróperuna í Tékklandi síðan í ágúst 2020 og hefur þar meðal annars farið með titilhlutverkið í Rósariddara Stauss, hlutverk Rosinu í Rakaranum frá Sevilla, Cherubino í Brúðkaupi Fígarós, Dorabellu í Cosí fan tutte, Stephano í Romeo et Juliette eftir Gounod, Kuchtík í Rusölku og Varvöru í Kát’a Kabanová eftir Janácek. 

Fyrir túlkun sína á Rósariddaranum var hún tilnefnd til Gagnrýnendarverðlaunanna í Tékklandi fyrir leik ársins 2022.

Arnheiður þreytti frumraun sína hjá Íslensku Óperunni sem Hans í óperunni „Hans og Gréta“ og vakti nýlega athygli fyrir túlkun sína á hlutverk Suzuki í „Madam Butterfly“ nú í vor. Hún söng einnig Dorabellu úr Cosí fan tutte við óperuhúsið í Daegu í Suður-Kóreu. 

Arnheiður hefur komið fram sem einsöngvari með Suður Bóhemsku Fílharmóníunni í Budweis, Kammerfílharmóníu Pardubice, Gürzenig hljómsveitinni, EinKlang Fílharmóníunni og sungið Les nuits d’été eftir Berlioz með Slesísku fílarmóníunni. Á næsta starfsári bíða hennar tónleikar með Tékknesku Fílharmóníunni, Fílharmóníu Bohuslav Martinu og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sérstaka unun hefur Arnheiður af sönglögum og ljóðum og þeim nánu tengslum sem myndast við hlustendur við flutning þeirra og hefur hún haldið ljóðatónleika á Íslandi, í Austurríki, Þýskalandi, Tékklandi og Slóvakíu.

Frá unga aldri söng Arnheiður í kórum Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og öðlaðist þar dýrmæta reynslu sem kór- og einsöngvari. 

Jóna G. Kolbrúnardóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2014. Sama haust hélt hún í framhaldsnám til Vínarborgar. Þar lauk hún sumarið 2018 Bakkalárgráðu við Tónlistarháskólann. Hún útskrifaðist með meistaragráðu vorið 2021 frá Óperu Akademíunni við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn. Jóna hefur verið sýnileg í tónlistarlífinu hérlendis síðustu ár. Hún hefur komið fram sem einsöngvari á þónokkrum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðast á Vínartónleikum sveitarinnar 2020 og á Klassíkin okkar 2021. Jóna fór með frumraun sína hjá Íslensku Óperunni sem Gréta í óperunni „Hans og Gréta“ árið 2018. Hún fór með sitt fyrsta hlutverk við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn haustið 2020, þar sem hún söng Papagenu í Töfraflautunni eftir Mozart. Jóna er einn af stofnendum Kammeróperunnar sem er nýstofnað tónlistarfélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að skapa vettvang fyrir smærri óperu verkefni en einnig hefur Jóna sungið í kvartett á vegum félagsins sem hefur nú þegar komið mikið fram í tónlistarlífinu á Íslandi. Í október 2022 fór hún með hlutverk Önnu í óperunni „Brothers“ eftir Daníel Bjarnason sem flutt var í Eldborg á vegum Íslensku óperunnar. Sama mánuð fór Jóna með hlutverk Despinu í óperunni „Così fan tutte“ eftir Mozart í fyrstu óperu uppfærslu Kammeróperunnar í Iðnó.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um
allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni
sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp
og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.