Hamingjan er svo sannarlega hér

Hamingjan við hafið heldur áfram og í gærkvöld var heldur betur glatt á hjalla hér í Þorlákshöfn. Litaskrúðganga hverfanna lagði upp frá Skálholtsbrautinni og safnaði saman bæjarbúum úr öllum hverfum og endaði í Skrúðgarðinum þar sem þeirra biðu funheit grill og matarvagnar. Margir nýttu sér grillaðstöðuna og grilluðu pylsur og hamborgara á meðan aðrir gæddu sér á gómsætum borgara frá 2 Guys eða kleinuhringjum frá Dons Donuts. Var þetta hin notalegasta stund í dásamlegu og mildu veðri.

Klukkan 9 hófst svo kvöldvaka í tjaldinu þar sem margir listamenn stigu á stokk undir dyggri stjórn hljóð- og tæknimeistaranna frá Sub. ehf. Hljómsveitin Sunnan 6 reið á vaðið og tryllti mannskapinn með þéttu og góðu prógrammi. Jónas Sig og hljómsveit voru næstir á svið og það má með sanni segja að Jónas er hvergi betri en hér í Hamingjunni. Tjaldið var troðfullt og mikil stemning. Hljómsveitin Hr. Eydís tók áhorfendur svo með í tímaferðalag til níunda áratugarins og rúllaði upp hverri klassíkinni á fætur annarri við mikinn fögnuð viðstaddra. Bryndís Ásmundsdóttir var með í för en hún tekur Tinu Turner gjörsamlega á annað stig. Það var svo enginn annar en Hreimur sem átti lokatónana á kvöldvökunni og yfir sveif brekkusöngsfílingur þar sem allir sungu með. Alveg hreint frábært kvöld.

Að kvöldvökunni lokinni tók Körfuknattleiksdeild Þórs við keflinu og bauð upp á DJ Braga í tjaldinu. Á sama tíma var einnig opið í garðinum á Skálholtsbraut 11 en þar hélt Hreimur og hljómsveit ,,opna hljómsveitaræfingu“ á pallinum. Garðurinn var rúmlega stútfullur af fólki og það má með sanni segja að húsráðendur, þau Guðlaug og Róbert Dan kunni svo sannarlega að taka vel á móti gestum.

Dagskráin í dag er ekki af verri endanum en hana má sjá á Facebooksíðu Hamingjunnar við hafið.