Hamingjan við hafið – dagur þrjú

Fimmtudagurinn 10. ágúst byrjaði frekar þungbúinn og blautur. Veðurspáin var hins vegar góð og þegar líða tók á daginn stytti upp, rétt svo passlega fyrir lautarferðina í Skrúðgarðinum. Þangað mætti hópur fólks með dýrindis kræsingar, margir með heimabakað. Áttu þau þar góða stund í fallegu veðri í dásamlegu umhverfi í garðinum en hann lítur einstaklega vel út, ekki síst eftir rigninguna.

Klukkan fjögur hófst svo sundlaugarpartí fyrir yngri krakka og sá Diskótekið Dísa um tónlist og leiki. Allir krakkarnir skemmtu sér konunglega og tóku fullan þátt í fjörinu í tvær klukkustundir. Allir fengu krap og fóru sáttir heim eftir mikið stuð í sundlauginni.

Annað sundlaugarpartí hófst svo klukkan sjö en þá voru það unglingarnir sem skelltu sér í laugina undir dynjandi músík Diskóteksins Dísu. Það partí var þó öllu rólegra en unglingarnir nutu þess að liggja í pottunum og svamla í lauginni í góða veðrinu. Nokkrir ferðamenn skemmtu sér konunglega við að stökkva af trampólíni út í laugina og allir fengu krap á meðan birgðir entust. Verkefnastjóri Hamingjunnar við hafið vill koma á framfæri þökkum til starfsfólksins í íþróttamiðstöðinni sem og til ungmennaráðs Ölfuss og þeirra foreldra sem komu og stóðu vaktina á bakkanum.

Mikil grill- og harmónikkuveisla var svo haldin á Níunni en þar var troðfullt hús og mikið dansað við undirleik hljómsveitarinnar Gammel dans.

Dagskrá Hamingjunnar við hafið nær svo hámarki nú um helgina með hverfaskrúðgöngu og kvöldvöku annað kvöld ásamt Körfupartíi Þórs og fjölskylduskemmtun, stórtónleikum og balli á laugardag.