Hákon Atli ánægður með EM í Sheffield

Borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í borðtennis sem fram fór í Sheffield á Englandi. Hákon lenti í sterkum riðli og komst ekki upp úr riðlakeppninni. Hákon hefur verið á mikilli siglingu undanfarin misseri og hefur háleit markmið í íþróttinni.

Á EM mætti Hákon sterkum spilurum frá Tyrklandi, Frakklandi og Hollandi. Í fyrstu viðureign tapaði Hákon gegn fyrrum Evrópumeistaranum Nicolas Savant-Aira frá Frakklandi 3-0 (11-6, 11-5, 11-5). Í öðrum leik hafði Hollendingurinn Gerardus Van Grunsven betur 3-1 (8-11, 12-10, 11-4 og 11-9) eftir hörku leik. Þriðji og síðasti leikur Hákons á mótinu fór 3-0 gegn Tyrkjanum Ali Ozturk (11-5,11-5, 11-2). Ozturk er fyrrum heimsmeistari síðan 2018. Það voru svo Þjóðverjinn Valentin Baus og Bretinn Jack Hunter Spivey sem mættust í úrslitaleiknum um gullið en þar hafði sá þýski betur 3-1.

„Mótið var mjög sterkt og þessir þrír sem léku með mér í riðlakeppninni eru allt keppendur sem hafa verið lengi að. Ég er þó ánægður með eitt og annað á mótinu og bara tímaspursmál hvenær maður fer að stríða þessum köllum enn meira,“ sagði Hákon við Hvatisport.is eftir mótið í Sheffield. Hákon hefur verið iðinn við kolann undanfarið og fór m.a. í æfingabúðir með sænska ParaBorðtennis-landsliðinu í aðdraganda Evrópumótsins. Hákon hefur verið mikið á ferðinni í undirbúningi sínum fyrir EM en hann hefur þegar sett stefnuna á þátttöku á Paralympics í Los Angeles 2028.

Þrátt fyrir að EM sé lokið er Hákon ekki að slá af heldur er hann á leið til Þýskalands þar sem hann mun spila sinn fyrsta leik í hjólastólaborðtennis í deildarkeppni Bundesligu 2 fyrir Frickenhausen. Hákon verður þar með fyrstur hjólastólaspilara frá Íslandi til að keppa í þýsku deildinni í borðtennis.

(Fréttin er fengin af Hvata, tímariti ÍF)