Hefur þú prófað að syngja í kór?

Ef þú svarar spurningunni hér að ofan játandi, þá veistu að það er ótrúlega skemmtilegt, nærandi, frelsandi og lærdómsríkt. Ef þú svarar neitandi þá er hér áskorun: Taktu skrefið og gakktu til liðs við Söngfélag Þorlákshafnar!

Söngfélag Þorlákshafnar er blandaður kór (karla og kvennaraddir) sem hefur verið starfræktur í meira en 60 ár hér í bæ og því næstum því jafn gamall þorpinu. Lengi vel sá kórinn um söng í kirkjunum í Þorlákshafnarprestakalli ásamt veraldlegum söng, en eftir að sérstakur kór var stofnaður við kirkjuna hefur kórinn eingöngu sungið það sem kórfélögum og söngstjóra dettur í hug hverju sinni. Þó er það fastur liður að æfa nokkur létt jólalög fyrir jólin og reyndar er lagavalið frekar á léttu nótunum allan ársins hring, oftast með píanóundirleik og stundum hljómsveit. Haldnir eru tónleikar, farið í ferðalög og sungið við ýmsar athafnir og tilefni og auðvitað er það alltaf markmið að syngja fyrir aðra. En aðalatriðið er samt að syngja fyrir sjálfan sig, njóta þess að heyra röddina sína hljóma með öðrum og skapa þá galdra sem verða til þegar sungið er í röddum.

Kórinn hefur í gegnum tíðina talið 20-40 manns, héðan og þaðan úr samfélaginu og á öllum aldri. Eftir heimsfaraldur hefur verið frekar fámennt hjá okkur og úr því langar okkur að bæta til að hressa upp á gamla, góða Söngfélagsandann. Því skorum við á alla söngelska Þorlákshafnarbúa – karla og konur – að stíga skrefið og mæta á opna kóræfingu Söngfélagsins sem haldin verður þriðjudaginn 10. október.

Kóræfingar fara fram í sal Tónlistarskóla Árnesinga í húsi Grunnskólans í Þorlákshöfn á þriðjudagskvöldum frá kl. 19:30-21:30. Fyrstu önnina syngja allir gjaldfrjálst en hóflegt mánaðargjald stendur síðan undir kostnaði (söngstjóri og fleira).

Söngstjóri er hinn bráðsnjalli og stórskemmtilegi Örlygur Benedikstsson tónlistarkennari, tónskáld og klarínettuleikari.

Allir söngelskir Þorlákshafnarbúar, aðrir Ölfusingar og nærsveitungar eru velkomnir til þátttöku í skemmtilegum félagsskap Söngfélagsins. 

Sjáumst á þriðjudaginn!