Þorlákshöfn og nágrenni fá heita vatnið til sín frá tveimur borholum. Nú hefur komið upp bilun við aðra þeirra með þeim afleiðingum að hún nýtist ekki hitaveitunni. Hin holan er í fullum rekstri og stendur vel undir notkun íbúa en Veitur hafa því óskað eftir því við stórnotendur á svæðinu að takmarka notkun sína. Það er gert til að tryggja megi heimilum heitt vatn til húshitunar.
Verið er að undirbúa viðgerð og framkvæmdir við holuna hefjast á sunnudaginn, en óljóst er hvenær henni verður lokið. Á meðan þessu stendur getur komið til þess að íbúar finni lítillega fyrir þessu, en það er þó frekar ólíklegt.
Íbúar eru hvattir til að fara sparlega með heita vatnið á meðan unnið er að viðgerð og aðstoða Veitur við að tryggja áfram öllum íbúum þessi lífsgæði sem heita vatnið gefur okkur.