Viðurstyggileg ljósmyndasýning undir stiganum

Þorirðu að taka forskot á Þollóween? Þá er heppnin aldeilis með þér því á morgun, þriðjudaginn 10. október kl. 17 opnar viðurstyggileg sýning í Galleríi undir stiganum. Þar má m.a. sjá heimatilbúnar hryllingsverur og ljósmyndir frá Þollóween-hátíðum fyrri ára.


Þetta er í sjötta skipti sem öflugar frenjur og nornir standa fyrir þessari stórskemmtilegu og skelfilegu skammdegishátíð og dagskráin í ár gefur ekkert eftir. Á þriðja hundrað ljósmyndir úr fórum Þollóween-kvenna verða til sýnis sem og nokkrir skrautmunir og listaverk eftir þær Erlu Dan Jónsdóttur og Hrafnhildi Hlín Hjartardóttur.


Á Facebooksíðu Bæjarbókasafnsins er tekið fram að hvorki safnið né aðstandendur hátíðarinnar taki ábyrgð á vitfirringu sem af sýningunni kann að hljótast.

Eins og áður segir opnar sýningin á morgun kl. 17 og verður boðið upp á kaffi og sætindi við opnunina.