Þollóween nálgast

Nú er undirbúningur fyrir Skammdegishátíðina Þollóween komin í fullan gang. Hópur rammgöldrótta norna hér úr bænum hefur undanfarnar vikur setið við að púsla saman glæsilegri dagskrá sem spannar heila viku, frá mánudeginum 23. október til sunnudagsins 29. október.

Dagskráin er að vanda glæsileg eins og þeirra norna er von og vísa. Hún hefst á formlegri opnunarhátíð í Skrúðgarðinum þar sem sýndur verður dans og opinn markaður með ýmsum vörum tengdum Þollóween. Þá verður Draugagarðurinn opnaður við sama tækifæri og hefur hann aldrei verið glæsilegri og má telja um 100 fígúrur og fyrirbæri sem nornirnar hafa búið til og málað undir dyggri handleiðslu Erlu Dan Jónsdóttur sem hefur teiknað og sagað út hinar ýmsu skepnur í gegnum tíðina sem prýða Draugagarðinn. Sjón er sögu ríkari og verður garðurinn opinn alla vikuna og hægt að skoða hann og taka þátt í myndabingói hvenær sem fólki hentar. Myndabingóið verður birt á Facebookviðburði Draugagarðsins og hægt verður að prenta hann þar út. Draugagarðurinn er fyrir alla fjölskylduna og hefur alltaf slegið í gegn.

Félagsmiðstöðin Svítan mun standa fyrir sýningu vel valdra hrekkjavökumynda fyrir krakka í 5.-10. bekk eins og hefð er orðin fyrir og má sjá nánari upplýsingar um það á Facebook síðu Svítunnar.

Í galleríi undir stiganum opnaði viðurstyggileg ljósmyndasýning í gær en þar gefur að líta hátt í 300 ljósmyndir frá Þollóween hátíðum frá 2018-2022. Einnig eru þar til sýnis munir sem Ágústa Ragnarsdóttir, Erla Dan Jónsdóttir og Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir hafa búið til fyrir hátíðina gegnum tíðina. Sýningin verður opin út októbermánuð á opnunartíma bókasafnsins.

Á þriðjudeginum verður boðið upp á ónotalega sundstund þar sem aldrei er að vita nema hryllilegar verur birtist út úr myrkrinu.

Á miðvikudeginum verður lifandi sögustund í bókasafninu þar sem sögupersónur verða mögulega á sveimi undir kynngimögnuðum lestri.

Þá um kvöldið verður svo skyggnilýsingafundur í Versölum þar sem miðlarnir Jón Lúðvíks og Valgerður Bachmann skyggnast inn í heim hinna framliðnu. Athugið að aðgangseyrir er á þennan viðburð og nánari upplýsingar munu birtast á Facebooksíðu Þollóween.

Á fimmtudeginum verður viðburður fyrir yngstu kynslóðina og fjölskyldur þeirra en sá dagskrárliður nefnist Grafir og bein. Mætið með vasaljós og leitið að beinagrindum sem búið er að fela í garðinum og komið þeim fyrir í réttri kistu.

Á föstudeginum er búningadagur í leik- og grunnskóla. Þá mæta allir klæddir í búninga og skólastarfið verður allt í miklum Þollóweenanda.

Milli klukkan 17 og 19 ganga börn svo í hús með grikk eða gott. Það verður nánar auglýst síðar á miðlum Þollóween.

Hápunktur Þollóween síðustu ár hefur án efa verið Draugahúsið hræðilega. Það hefur meðal annars verið haldið áður að heimili Erlu Dan sem lagt var undir leikmynd frá innkeyrslu og upp í ris og í fyrra á loftinu í gamla Meitlinum eins og frægt er orðið en þá voru þær Erla Dan og Ágústa í rúman mánuð að setja upp, skreyta og skipuleggja. Þetta er aðeins fyrir þá sem þora og hefur borið á því að sterkustu einstaklingar hafi rekið upp vein og hrunið í gólfið af hræðslu við að ganga gegnum hryllinginn. Í ár verður Draugahúsið staðsett í gömlu Olís versluninni að Óseyrarbraut 6. Nornirnar lofa miklum hryllingi og hræðslu enda er um eitt elsta verslunarhús bæjarins að ræða og eflaust margir draugar á sveimi. Aðgangseyrir verður að draugahúsinu og aldurstakmark 14 ár nema í fylgd með fullorðnum. Draugahúsið verður föstudagskvöldið 27. október og nánari upplýsingar verður að finna á Facebook viðburðinum.

Hátíðinni lýkur svo með hinu árlega Nornaþingi í Versölum laugardagskvöldið 28. október. Nornaþingið er aðeins fyrir nornir svo seiðkarlar verða að finna sér eitthvað annað að gera þetta kvöld. Dagskráin er glæsileg í ár, fordrykkur, happdrætti, Sigga Dögg, Madame Tourette og ball svo eitthvað sé nefnt. Blush verður einnig á staðnum með sölubás og heyrst hefur að jóladagatalið þeirra vinsæla verði þar til sölu. Upplýsingar um nánari dagskrá, miðasölu og fleira má finna á Facebook.

Þollóween nefndin eða ,,Nornirnar“ eins og þær kalla sig samanstendur af nokkrum dugmiklum konum sem leggja nótt við dag í sjálfboðavinnu við að undirbúa hátíðina svo hún verði sem glæsilegust.

Nornirnar vilja koma á framfæri þökkum til Ölfusborgar fyrir allar krossviðsplöturnar en án þeirra væri Draugagarðurinn ekki eins glæsilegur og raun ber vitni. Einnig vilja þær þakka Sveitarfélaginu Ölfusi, Olís, Húsasmiðjunni og Lárusi A. Guðmundssyni fyrir veittan stuðning sem og öðrum velunnurum sem hafa t.d. gefið glæsilega happdrættisvinninga.

Nú er lag að finna Þollóween á Facebook og Instagram og fylgjast með viðburðunum hlaðast inn. Svo er upplagt að fara að skreyta og leyfa skrautinu að njóta sín allan mánuðinn. Þetta verður ógleymanleg hátíð.

Þau sem vilja styrkja hátíðina með frjálsum framlögum geta lagt inn á reikning Viðburðafélagsins Þollóween kt. 621018-1400 reikningur nr. 0152-26-020020

Gleðilega Þollóween