Ekki er allt gull sem glóir

Flest okkar vilja lifa friðsamlegu lífi og koma börnunum okkar til manns. Það á væntanlega líka við um íbúa Þorlákshafnar, þeim fallega bæ þar sem mikil uppbygging er í gangi um þessar mundir. Svo mikil að fólk þarf að hafa sig allt við til að fylgjast með og kjörnir fulltrúar þurfa sannarlega að vera með puttann á púlsinum svo ekkert verkefni falli á milli og sleppi í gegn án gagnrýnnar skoðunar. Þetta er ærið verkefni og ábyrgðarmikið.

Þýska sementsfyrirtækið Heidelberg hyggst byggja mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Þó eru 45% íbúa á móti verksmiðjunni en aðeins 19% eru hlynt henni. Þessar tölur sýna að íbúar eru vakandi og gera sér grein fyrir að ekki er allt gull sem glóir. Þrátt fyrir að bæjarfélagið hafi nú úthlutað fyrirtækinu nýja lóð í kjölfar mikillar gagnrýni á staðsetningu og hæð fyrirhugaðrar verksmiðju, sem áætlað er að verði 20 þúsund fm, er margt sem hafa þarf í huga þegar íbúar fá að kjósa um framhaldið. Þarna er nefnilega fyrirhugað að moka burt heilu fjalli eða 18 milljónum rúmmetrum sem er gríðarlegt magn og því mun fylgja mikið jarðrask, ryk og vafalaust önnur óþægindi sem svona stórframkvæmdum fylgja. Auk þessa hefur fyrirtækið í hyggju að flytja og vinna 7-10 þúsund tonn af efni af sjávarbotni sem mögulega þýddi umferð flutningaskipa til og frá Þorlákshöfn 8-10 sinnum í viku. Óljóst er um vinnslu þess en mögulega færi hún fram í Þorlákshöfn með tilheyrandi raski og aðbúnaði (færibandi, setlóni) og yrði einnig til útflutnings. Fyrirtækið, Heidelberg Materials, er auk þess með vafasamt orðspor og hefur þurft að greiða hundruði milljóna í sektir vegna brota á umhverfisverndarlögum síðustu tvo áratugi.

Fyrirhugað efnistökusvæðið á landi er innan fjarsvæðis vatnsverndar sem þýðir að vinnsla er á vatnasvæði vatnsbólsins. Slíkt getur þýtt mengun í vatni enda um vatnsverndarsvæði að ræða. Mengun getur orðið þar sem örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings. Þá getur röskun á lífríki eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar einnig haf óafturkræf áhrif og mikilvægt að hafa í huga svæði sem njóta verndar í samræmi við reglugerð um verndun vatns, reglugerð um verndun grunnvatns auk neysluvatnsreglugerðar (Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 7/1998 og reglugerðir nr. 796/1999, 797/1999, 536/2001). Þá tekur mengun einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis auk annarra óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Allar líkur eru á því að eitthvað af þessu eigi við ef af vinnslu verður. Þar sem vatnið er okkar dýrmætasta auðlind er gríðarlega mikilvægt að gæta sérstaklega að vatnsverndarsvæðum og tryggja að hreint og ómengað vatn komi úr krönunum okkar. Vatn tryggir ekki aðeins okkar eigin hollustu heldur leikur vatn stórt hlutverk í hagkerfinu og er mikilvægt í fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Slík vinnsla hefur auk þessa áhrif á náttúru og umhverfi enda mikið rask sem fylgir. Ekki aðeins vinnslunni sjálfri og þeim framkvæmdum sem henni fylgja heldur mun einnig skapast álag á vegakerfið vegna aukinnar umferðar þungaflutninga við brottflutning hráefnis og mikilvægt að huga að því bæði hvað varðar mengun og hljóðvist. 

Í aðalskipulagi Ölfuss er kveðið á um verndun lítt raskaðra landsvæða og óbyggðra víðerna sem hafa þarf í huga við þessar fyriráætlanir. Svona vinnsla getur sést langt að og verið lýti í umhverfinu, gróður í nánd getur hlotið skaða af og ímynd staðarins beðið hnekki. Skýrt er að lög kveðja á um umhverfismat við svona miklar framkvæmdir, hafa þarf verndargildi landsvæðis í huga sem og að þetta jarðefni er auðlind sveitarfélagsins.

Við uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi Þorlákshafnar, t.d. ferðaþjónustu þarf að huga vel að nánasta umhverfi, hvað dregur úr eða eykur aðdráttarafl staðarins og alls ekki fórna náttúru og vistkerfi fyrir skammgóðan vermi. Það er gríðarlega mikilvægt að íbúar fái tækifæri til umsagna og áhrifa því samfélagsleg og umhverfisleg áhrif verða mikil og óafturkræf. Kjörnir fulltrúar, sem íbúar hafa lagt sitt traust á, eiga þar að vera fremstir í flokki og hafa hag og velferð samfélagsins alls efst í huga. Íbúar þurfa að upplifa að á þá sé hlustað og þeirra þarfir séu í forgrunni, þeirra er nefnilega rétturinn og framtíðin. 

Hólmfríður Árnadóttir

Höfundur er menntunarfræðingur og oddviti Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs í Suðurkjördæmi