Nú styttist í setningu Skammdegishátíðarinnar Þollóween en næstkomandi mánudag, 23. október verður formleg opnunarhátíð kl. 17:30 á Ráðhústorginu.
Þollóweennornirnar verða með markað í anddyri Ráðhússins þar sem verða til sölu Buff með merki Þollóween hátíðarinnar en hönnuður merkisins er Ágústa Ragnarsdóttir. Einnig verða í forsölu miðar á Nornaþingið þann 28. október. Viss verður einnig með sölubás þar sem hægt verður að kaupa Þollóween skraut.
Nemendur úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn sýna draugalegt dansatriði undir stjórn Önnu Berglindar Júlísdóttur.
Draugagarðurinn verður formlega opnaður við þetta tækifæri en hann hefur aldrei verið glæsilegri. Nornirnar hafa bætt við fjölda muna í garðinn og eru nú um 100 Þollóweenfígúrur í garðinum en Nornirnar hafa eytt síðustu vikum í að teikna, saga út og mála þær svo garðurinn verði sem bestur þetta árið undir dyggri stjórn Erlu Dan Jónsdóttur en hún er hugmyndasmiðurinn á bak við Draugagarðinn. Hægt verður að nálgast bingóspjöld til að prenta út á viðburði Draugagarðsins á Facebooksíðu Þollóween frá mánudeginum og geta þá börn sem og fullorðnir gengið um ljósum prýddan Draugagarðinn í leit að hinum ýmsu furðuverum. Vert er að benda á að hægt er að láta prenta út á Bæjarbókasafninu gegn vægu gjaldi. 2Guys verður með matarvagninn á svæðinu frá kl. 17:00 svo það er um að gera að njóta skammdegisins í Draugagarðinum og fá sér kvöldmat úti undir beru lofti í leiðinni.
Dagskrá Þollóween heldur svo áfram út vikuna og má nálgast hana á Facebooksíðu Þollóween en einnig birtist hún í Dagskránni sem gefin var út fimmtudaginn 19. október. Um að gera að næla sér í blaðið og klippa út dagskrána til að hengja á ísskápinn.
Nornirnar vilja koma því á framfæri að breyting hefur orðið á áður auglýstri dagskrá en vegna Kvennaverkfalls færist Ónotaleg sundstund frá þriðjudeginum 24. október til fimmtudagsins 26. október. Sjá nánar á viðburði á Facebook.
Hafnarfréttir munu fylgja hátíðinni eftir alla vikuna.
Gleðilega Þollóween!