Landfylling í kverk við hafnargarð við Þorlákshöfn

::markmiðið er og verður áfram að gæta heildarhagsmuna

Allt þar til að núverandi bæjarstjórn, undir forystu D-lista, gerði þar breytingu á var það stefna sveitarfélagsins að byggja umfangsmikla hafnargarða sem hefðu haft mikil áhrif á allt umhverfi hafnarinnar. Til grundvallar þeirrar hugmyndar var m.a. áform um að byggja hér álver.

Þessi mynd sýnir þær hugmyndir og það skipulag sem var í gildi allt þar til fyrrverandi bæjarstjórn undir stjórn D-lista hóf vinnu við nýtt aðalskipulag og núverandi bæjarstjórn einnig undir stjórn D-lista gerði þar breytingar á og samþykkti.

Ef unnið hefði verið eftir þessari samþykkt, sem var í gildi frá 2010-2023, þá þarf ekki að efast um að tækifæri til útivistar, bæði sunnan og norðan hafnar hefði breyst verulega mikið. 

Í stað þessarar hugmyndar ákvað meirihluti D-lista, í góðu samstarfi við þann minnihluta sem hér starfaði frá 2018 til 2022, að skala niður umfang framkvæmda. Núgildandi aðalskipulag má sjá á myndinni hér að neðan, inn á hana hafa verið teiknaðir þeir garðar sem heimilt var að byggja allt þar til í vor að nýtt aðalskipulag tók gildi (litaðir rauðir):

Við framkvæmdir tengdar þessari breytingu kom í ljós að þörf væri á auknu athafnasvæði til að þjónusta nýjan viðlegukant sem unnið er að. Samhliða lá fyrir sá möguleiki að færa þangað dýpkunarefni sem var að falla til og draga þannig úr kolefnisspori framkvæmdarinnar og auka hagkvæmni hennar, sem sagt draga úr kostnaði.  Málið var upphaflega kynnt í framkvæmda- og hafnarnefnd (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)) þar sem því var visað í skipulagsferil án mótatkvæða. Umhverfis- og skipulagsnefnd afgreiddi málið einnig frá sér einróma og samþykkti að skipulagsfulltrúa yrði falið að auglýsa tillöguna (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)).  Það var svo staðfest af bæjarráði – enn og aftur án mótatkvæða eða bókunar (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)). 

Upphafleg hugmynd um uppfyllingu má sjá á þessari mynd:

Á skipulagstímanum bárust athugasemdir við framkomna tillögu, flestar frá aðilum tengdum Brimbrettafélagi Íslands. Við vinnslu verkefnisins kom samhliða í ljós að áætlaðar magntölur úr dýpkun reyndust ofáætlaðar. Því væri mögulegt að hafa uppfyllinguna umfangsminni en í upphafi var talið, án þess að fórna hagsmunum hafnarinnar í fyrirséðri framtíð. Þá höfðu einnig borist hugmyndir frá Brimbrettafélagi Íslands sem unnar voru í samstarfi við fagaðila. 

Á fundi Framkvæmda- og hafnarnefndar lagði sviðsstjóri því fram tillögu að landfyllingu. Í inngangi þess máls segir: 

„Sviðstjóri leggur fram uppfærða tillögu af landfyllingu þar sem komið er á móts við óskir Brimbrettafélags Íslands í meginatriðum.“ 

Breyting þessi sem þarna er vísað til dregur úr umfangi uppfyllingar þannig að svæðið nær ekki 140 metra til suðurs meðfram strandlengjunni eins og upphaflega tillagan gerði ráð fyrir heldur einungs um 70 m eða 50% skemur í átt að því svæði sem helst er nýtt til brimbrettaiðkunar. Í öllum megin dráttum er þessi hugmynd unnin út frá hugmyndum sem Brimbrettafélagið lagði fram á skipulagstímanum.

Þá er rétt að hafa í huga að í minnisblaði hafnarverkfræðings er eftirfarandi álit veitt:

„Áhrif landfyllingar á öldufar sunnan við útsýnispall eru engin. Endurkast landfyllingar er óverulegt vegna grjótgarðs. Endurkastið af sjóvörninni endurkastast í átt að Suðurvarargarði en ekki til baka.  Aldan mun halda áfram að hlaðast upp á kúlunni eins og hún hefur gert í aldanna rás brimbrettaiðkendum til ánægju.  Aldan gerir sér enga grein fyrir hvað er framundan og þannig að fullyrðingar um að verið sé að skemma eitthvað standast enga skoðun.„

Myndin hér fyrir neðan sýnir þá tillögu sem lá til grundvallar umfjöllunar og samþykktar í framkvæmda- og hafnarnefnd:

Skematískamyndin hér að neðan sýnir nokkurn veginn muninn á upphaflegu deiliskipulagstillögunum (rauðar útlínur), tillögu brimbrettafélagsins (svartar útlínur) og þeirri uppfyllingu sem framkvæmda- og hafnarnefnd hefur óskað eftir heimild fyrir (gular útlínur).

Þessi breyting var gerð, eins og fyrr segir, til að gæta heildarhagsmuna samfélagsins.

Fylgt úr hlaði

Umhverfis- og skipulagsmál eru ætíð viðkvæm og mikilvægt að þar sé vandað til verka. Hvað sem líður upphlaupi og gífuryrðum þá þurfa skipulagsyfirvöld að taka tilliti til margskonar hagsmuna, bæði þegar litið er til skemmri og lengri tíma. Ólíkir hagsmunir kunna að takast á og þá er sérstaklega mikilvægt að vanda til verka og huga að meðalhófi. Sem sagt að ganga ekki lengra í neina átt en nauðsynlegt er til að ná settu marki. Það hefur verið markmið meirihluta D-lista í þessu máli sem og öðrum og svo verður áfram.

Gestur Þór Kristjánsson – Forseti bæjarstjórnar

Erla Sif Markúsdóttir – bæjarfulltrúi og nefndarmaður í framkvæmda- og hafnarnefnd

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir – bæjarfulltrúi og fulltrúi í bæjarráði

Grétar Ingi Erlendsson – formaður bæjarráðs nefndarmaður í framkvæmda- og hafnarnefnd

Eiríkur Vignir Pálsson – formaður framkvæmda- og hafnarnefndar

Geir Höskuldsson – formaður umhverfis- og skipulagsnefndar

Hjörtur Ragnarsson – nefndarmaður í umhverfis- og skipulagsnefnd