GeoSalmo lýkur fjármögnun

GeoSalmo hefur lokið tveggja milljarða króna fjármögnun með þátttöku norskra, sænskra, íslenskra og hollenskra fjárfesta. Þessi niðurstaða gerir félaginu, sem undirbýr uppbyggingu hátæknilandeldis á laxi, kleift að hefja þegar í stað framkvæmdir við fiskeldisstöðvar sínar við Þorlákshöfn ásamt því að halda áfram þeirri kröftugu þróun sem félagið hefur unnið að á undanförnum misserum.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur og tryggir félaginu fjármagn til að taka næstu skref á vegferð þess. Við erum gríðarlega ánægð með þann hóp fjárfesta sem kemur að verkefninu núna og þeirra reynsla og tengsl munu nýtast okkur afskaplega vel í uppbyggingu verkefnis okkar, „segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo. „Þetta sýnir jafnframt trú fjárfesta á okkar sýn á landeldi, tækni okkar og teymi.“

Breiður hópur öflugra fjárfesta frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Hollandi bætist í hluthafahópinn í þessari hlutafjáraukningu og myndar sterkan grunn fyrir áframhaldandi áform félagsins. Meðal fjárfesta sem koma nýir að verkefninu núna eru Skel fjárfestingafélag, eigendur sjávarútvegsfélagsins Eskju og Úthafsskip ásamt norsku iðnaðarsamsteypunni Endúr ASA og tengdum aðilum og hollenska fiskvinnslu- og dreifingarfyrirtækinu Adri & Zoon.

Í stjórn félagsins koma inn, eftir hlutafjáraukninguna, Pål Reiulf Olsen, stjórnarformaður Endúr og reyndur norskur stjórnarmaður tengdur fiskeldi, iðnaði og fjármálamörkuðum og Marinella Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Úthafsskipa. Munu þau skipa stjórn félagsins ásamt stofnanda og aðaleiganda GeoSalmo, Aðalsteini Jóhannssyni.

GeoSalmo leggur í uppbyggingu sinni áherslu á öruggt og heilbrigt umhverfi eldisfisks, umhverfisvæna framleiðslu og stöðuga afhendingu afurða. Fyrirtækið nýtir sannreyndar fiskeldislausnir og byggir að auki á þeim ótvíræðu styrkleikum sem íslenskt umhverfi býr yfir og nýtist við uppbyggingu landeldis.

Um GeoSalmo

GeoSalmo áformar byggingu 24.000 tonna fiskeldisstöðvar í Ölfusi, við Þorlákshöfn. Fyrirtækið stefnir á að verða leiðandi aðili í þróun fiskeldis á landi á Íslandi og leggur áherslu á að starfsemi þess sé í góðri sátt við umhverfi og samfélag. Félagið hefur þegar lokið umhverfismati og skipulagsvinnu auk þess að hafa gert samning við Orku Náttúrunnar um 28 megawött af rafmagni til langs tíma fyrir alla uppbyggingu landeldistöðvarinnar og fullan rekstur hennar. Geo Salmo ætlar sér að skapa hágæðavöru til útflutnings.