Mexico kjúklingasúpa með fetaostbrauði

Nú verður þátturinn Sælkeri mánaðarins endurvakinn og það er engin önnur en Ásta Margrét Grétars Bjarnadóttir sem kemur hér með girnilega uppskrift að Mexico kjúklingasúpu og dásamlegu fetaostbrauði.

,,Þessa uppskrift fékk ég einhversstaðar fyrir mörgum árum og hef hana mjög oft í matinn þegar ég er með veislu eða býð stórfjölskyldunni í mat þar sem hægt er að gera hana deginum áður og er hún þá oft orðin bragðbetri.

1 kúrbítur smátt saxaður

3 laukar fínt saxaðir

3 hvítlauksgeirar fínt saxaðir 

Allt steikt saman á pönnu eða potti í slettu af olíu

2 dósir saxaðir tómatar

1 tsk cayenne pipar

11/2  tsk chili duft

2 tsk jurtasalt (flögusalt)

1 tsk kúmen

1 tsk Tabasco sósa

Sett saman í pott með laukunum og kúrbítnum

1 líter tómatsafi eða grænmetissafi og ½ lítri af vatni.

1 dós maískorn og kórander sett út í í lokin ef ég á það til.

Stundum bæti ég við papriku, ananas úr dós, gulrótum eða eitthvað sem ég á í kæliskápnum.

Sumir setja rjóma eða sýrðan rjóma út í en mér finnst það ekki líta vel út, verður smákekkjótt við það.  

Kjúklinginn (bringur eða lundir) sker ég í bita og steiki á pönnu í olíu, krydda með einhverju kryddi sem ég á (best á borgarann/best á kjúklinginn eða seson all)  og helli út í súpuna af pönnunni svo olían og kryddið fari með.

Þetta er svo borið fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og Mexico snakki (Nachos) ásamt fetabrauðinu góða….

Fetaostbrauð

Þetta brauð geri ég bara eftir minni, “slumpa “ ….og það er oftast eins, en alls ekki alltaf…. Um að gera að prufa sig áfram.  En það er ca svona:

500 ml volgt vatn í skál

1 pakki ger sett í og pískað aðeins

6 msk sykur hrært í

½ krukka fetaostur (með bláa miðanum) með olíunni og öllu gumsinu sett í 

Ostafgangar sem ég á í kæliskápnum, svo sem afgangar að brauðosti (sker í teninga)

Rifinn ostur eða piparostur sem ég sker í bita…. bara það sem til er (þarf samt ekki)

Hveiti eftir þörfum…. Ca 500 – 600 gr fer allt eftir vökvanum

Five pepppers piparkorn kvörnuð í (set ca 3-4 tsk)

Salt 1-2 tsk 

Rósmarín krydd 3 tsk eða eftir því sem mann langar til, ég set frekar mikið af því.

Fetaostbrauðið góða

Hnoðað í hrærivélinni þangað til það loðir ekki lengur við barmana, ef það er of blautt þá þarf að bæta við meira hveiti, ef það er of þurrt þá set ég bara aðeins af volgu vatni í .

Látið hefast í 40 mín eða lengur, hnoðað aðeins í höndunum og sett í form sem búið er að klæða með smjörpappír eða smyrja með olíu úr fetaostkrukkunni

Brauðið hnoðað ofan í formið svo það sé nokkurn veginn jafnt og puttunum stungið að lokum ofan í það svo það myndast holur…… 

½ til 1 krukka af fetaosti hellt yfir, þannig að það er nokkuð jafnt yfir, saltflögur og rósmarín krydd sáldrað yfir og bakað í ofni á ca 180° með blæstir þangað til það verður ljósbrúnt (gyllt) á litinn….. (ca 30 – 40 mín).

Ég skora á Óttar Ingólfsson til að verða sælkeri marsmánaðar. Hann er algjör listakokkur.“

Hann er beðinn að senda uppskrift á frettir@hafnarfrettir.is fyrir 15. mars næstkomandi.