Lengjubikarinn í körfubolta er enn í fullum gangi og spiluðu Þórsarar tvo leiki um helgina.
Á föstudaginn gerði liðið sér góða ferð í Grafarvoginn og sigruðu Fjölni nokkuð sannfærandi 79-93. Nemanja Sovic átti stórleik og skoraði 33 stig og þar af 6 af 6 í þriggja stiga skotum. Þorsteinn Már átti einnig mjög góðan leik og skoraði 22 stig en hann var með 100 prósent nýtingu af vítalínunni og setti niður 11 bolta þaðan.
Í gærkvöldi voru Njarðvíkingar sóttir heim. Þeir frumsýndu Loga Gunnarsson sem nýverið samdi við uppeldisfélag sitt eftir að vera búinn að spila erlendis í atvinnumennsku í mörg ár. Þórsarar frumsýndu einnig nýjan leikmann, Mike Cook, en hann lét finna vel fyrir sér þrátt fyrir að vera rétt lentur á klakanum.
Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Þórsara og var staðan 25-11 fyrir Njarðvík þegar sjö og hálf mínúta voru liðnar af fyrsta leikhluta en eftir það fóru Þórsarar að vakna til lífsins og náðu að saxa á heimamenn. Leikurinn var síðan jafn og spennandi það sem eftir var en Njarðvík hafði betur á endasprettinum og landaði 95-87 stiga sigri. Hjá Þórsurum var hinn nýji Cook stigahæstur ásamt Sovic með 22 stig hvor. Raggi Nat átti mjög góðan leik og skoraði 18 stig ásamt því að taka 9 fráköst.
Næsti leikur Þórs í Lengjubikarnum er heimaleikur gegn Haukum á föstudaginn klukkan korter yfir sjö.