Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku Náttúrunnar hlaut Umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 fyrir brautryðjendaverkefni við uppgræðslu á Hellisheiði.
Verðlaunin voru afhent í gær, sumardaginn fyrsta, við hátíðlega athöfn í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur athöfnina og afhenti Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Magneu verðlaunin.
„Samkvæmt upplýsingum frá Orku Náttúrunnar felur verkefni Magneu í sér að nýttur er staðargróður til að græða upp svæði sem var raskað við virkjunarframkvæmdir á Hellisheiði eða önnur umsvif fyrr á tíð. Ávinningurinn er sá að ásýnd svæðanna verður svipuð því og áður en raskið varð og til þess nýtir Magnea gjarna mosa eða annar móagróður, sem setur mark sitt á umhverfið,“ segir á heimasíðu Ölfuss.
Dagný Magnúsdóttir listakona úr Þorlákshöfn og eigandi Hendur í Höfn hannaði verðlaunagripinn. „Hugmyndafræði Magneu í landgræðslu var innblástur Dagnýjar að gripnum.“