Lúðrasveit Þorlákshafnar spennir bogann hátt nú í maí eins og svo oft áður. Sveitin hefur látið útsetja sérstaklega fyrir sig valin lög úr smiðju Magnúsar Þórs Sigmundssonar og það vita þeir sem til þekkja að úr nógu er að velja enda Magnús Þór einn af ástsælustu og afkastamestu lagahöfundum sem Íslendingar eiga. Sveitin fékk nokkra útsetjara til verksins sem hver um sig ljær verkum Magnúsar sérstakan blæ.
Um er að ræða tólf dásamlegar og vel þekktar dægurlagaperlur s.s. Álfar, Jörðin sem ég ann, Ísland er land þitt, Þú átt mig ein, Ást, Ef ég gæti hugsana minn, Dag sem dimma nátt, Blue Jean Queen o.s.frv. Með lúðrasveitinni koma fram góðir gestir. Fyrst ber að nefna söngvarann Stefán Jakobsson, sem er hvað þekktastur fyrir að syngja með hljómsveit sinni Dimmu. Hann mun syngja nokkur laganna með lúðrasveitinni og það má lofa því að eimitt þá munu gæsahúðaraugnablikin koma í kippum! Einnig mun Magnús Þór sjálfur vera í hlutverki kynnis og segja áheyrendum sögur af lögunum og ferli sínum.
Um þrenna tónleika er að ræða; eina í Þorlákshöfn fimmtudaginn 18. maí, aðra í Hveragerði þann 19. maí og svo loks í Gamla bíó í Reykjavík sunnudaginn 21. maí. Allir hefjast tónleikarnir kl. 20:30 og er miðaverð 3.500 kr.
Það er vert að taka það fram að aðeins eru 200 miðar í boði í Þorlákshöfn og eru þeir seldir í Kompunni og ekki posi á staðnum. Það er hins vegar Midi.is sér um miðasölu á tónleikana í Hveragerði og Reykjavík.
Lúðrasveitin vonar að sem flestir sjái sér fært um að mæta og njóta þessa viðburðar hvort sem það er í heimabyggð eða nágrannabæjum, en mikil vinna hefur verið lögð í verkefnið með tilheyrandi kostnaði. Lúðrasveitin hefur staðið í ströngu í fjáröflun og einnig fengið styrki fyrir verkefninu frá Menningarsjóði SASS, Markaðs- og menningarnefnd Ölfuss og Nótnasjóði STEFs. Kunnum við bestu þakkir fyrir það. Við hlökkum til að sjá sem flest ykkar!
Ágústa Ragnarsdóttir, form. LÞ