Sveitarfélagið Ölfus ætlar ekki að nýta lögboðinn forkaupsrétt sinn vegna sölunnar á Sæunni Sæmundsdóttur ÁR 60 en samkvæmt 12. grein laga um stjórn fiskveiða á Sveitarfélagið Ölfus forkaupsrétt.
Eins og Hafnarfréttir greindu frá þá seldi fyrirtækið Hrímgrund allar allaheimildir sínar ásamt bátnum Sæunni. Hjónin Þorvaldur og Guðbjörg, eigendur Hrímgrundar, ásamt sonum sínum og fleira fólki ætla að halda starfsemi fyrirtækisins áfram á nýjum vettvangi og hefja uppbyggingu húsnæðis í Þorlákshöfn.
„Salan á Sæunni Sæmundsdóttur ÁR 60 er enn eitt skrefið í neikvæðri þróun aflaheimilda og útgerðar í Þorlákshöfn en með útgerðinni hverfa veiðiheimildir úr sveitarfélaginu sem samsvara um 200 þorskígildistonnum,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss um málið.
Þá kemur einnig fram í bókuninni að það sé erfitt fyrir bæjarfélag eins og Þorlákshöfn að sætta sig við að aflaheimildir og útgerð dragist saman eins og raunin hefur verið í bæjarfélaginu um talsvert skeið. Bæjarstjórn Ölfuss fagnar þó áformum eigenda Hrímgrundar sem ætla að starfa áfram á nýjum vettvangi í sveitarfélaginu.