Fimmtudaginn 28. nóvember verður opnuð ný sýning í sýningarrými bókasafnsins í Þorlákshöfn, Gallerí undir stiganum.
Sýningin tengist aðventunni og jólunum sem framundan eru, en það er hún Rut Sigurðardóttir, Þorlákshafnarbúi og annáluð handavinnukona, sem sýnir margvíslegt jólaskraut sem hún hefur útbúið. Rut hefur undanfarin ár svotil einungis skreytt jólatréð í stofunni hjá sér með skrauti sem hún hefur sjálf útbúið. Hún hefur saumað ýmislegt út, perlað, heklað og prjónað. Það eina sem vantar upp á er stjarnan á toppinn. Auk skreytinga á jólatréð hefur hún saumað fallega klukkustrengi, jólamyndir og margt fleira sem hún mun sýna gestum bókasafnsins.
Sýning Rutar verður sem fyrr segir, opnuð næstkomandi fimmtudag og eru allir velkomnir á opnunina þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Sýningin mun standa yfir til föstudagsins 20. desember.