Miklar umræður hafa átt sér stað í samfélaginu undanfarið vegna niðurstaðna úr PISA könnuninni. PISA könnunin mælir hæfni nemenda í 10. bekk í 65 löndum OECD og þykir mikið áhyggjuefni hve íslenskir nemendur koma illa útúr könnuninni í samanburði við önnur lönd, sérstaklega virðast ungir drengir á Íslandi eiga í erfiðleikum með að lesa sér til gagns. Reyndar hafa margir orðið til að vekja athygli á gleðitíðindum sem lesa má úr könnuninni, en það eru niðurstöður sem sýna að íslenskum börnum líður vel í skóla. Margir vilja meina að það skipti kannski mestu máli og hljóta foreldrar að taka undir það.
Fréttatíminn birti í síðustu viku lista yfir þá skóla sem hafa verið með hæsta meðaltalið úr samræmdum prófum á árunum 2007-2011. Það hlýtur að fylla Ölfusinga stolti að sjá að Grunnskólinn í Þorlákshöfn kemst á lista með 4. og 7. bekkina sína. Athygli vekur að Ölfusið er efst á lista í stærðfræði með sjöundu bekkina en í öðru sæti í stærðfræði með 4. bekkina. í íslensku vermir Ölfusið 5. sætið með fjórðu bekkina en 13. sætið með 7. bekkina. Grunnskólinn nær ekki á listann með 10. bekkina að þessu sinni, en við athugun á niðurstöðum samræmdu prófa síðustu árin, þá hafa 10. bekkirnir í Ölfusinu staðið sig mjög vel og er því líklegt að með hverju árinu þoki þeir skólanum sínum ofar í samanburðar-töflunni.
Þessi góði árangur nemenda í Ölfusinu er ótrúlegur ef hugsað er til þess að í Ölfusinu er 15% íbúa af erlendum uppruna (samkvæmt íbúaskrá 1.12.2012). Það er ljóst að þennan góða árangur má þakka starfsfólki í leik- og grunnskólanum í Þorlákshöfn, en strax í leikskóla er byrjað að vinna með stærðfræðiverkefni og mikið samstarf er milli leik- og grunnskóla. Vel er fylgst með öllum nemendum frá upphafi skólagöngu. Notast er við skimanir og niðurstöður úr þeim notaðar til að aðstoða nemendur sérstaklega ef þess gerist þörf. Allt þetta góða starf og náið samstarf við foreldra virðist skila sér í góðum árangri nemenda.
Eins og fyrr sagði, kom í ljós í PISA könnuninni að mikill munur er á lestrarfærni drengja og stúlkna. Þegar Halldór Sigurðsson, skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn var spurður út í hvort mikill munur væri á færni drengja og stúlkna að lesa sér til gagns meðal nemenda hér, sagði hann svo ekki vera. Búið er að fara yfir próf og skoða niðurstöður og kom í ljós að enginn marktækur munur er á hæfni 15 ára drengja og stúlkna að lesa sér til gagns.
Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi