Íbúar Þorlákshafnar eru ánægðustu íbúarnir samkvæmt nýbirtri rannsókn á afstöðu íbúa á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjarfélögum í landsbyggðunum til búsetu, sem birt er á vef Byggðastofnunar.
Í skýrslunni kemur fram að ánægja virðist vera mest meðal íbúa Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hveragerðis og Akraness en í Reykjavík austan Elliðaár, í Vogum og Borgarnesi er hlutfall þeirra sem segjast mjög ánægðir með búsetu sína talsvert lægra.
Í Þorlákshöfn og Grindavík er einnig hæsta hlutfall þeirra sem segja að lífsskilyrði hafi batnað á seinustu árum og þegar spurt var hvort íbúar teldu að lífsskilyrðin myndu batna eða versna á næstu árum sker Þorlákshöfn sig nokkuð úr en 32% telja að þau muni batna mikið og 59% að þau muni batna nokkuð.
Alls svöruðu 9.664 manns þessari könnuninni sem var gerð var frá október til desember á seinasta ári og má nálgast skýrsluna á vef Byggðastofnunar.