Þórsarar unnu sannfærandi sigur á Vestra í Icelandic Glacial höllinni fyrr í kvöld þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta. Lokatölur urðu 100-77.
Leikurinn var í raun aldrei í hættu og spiluðu Íslandsmeistarar Þórs heilt yfir mjög vel í kvöld að undanskildum smá kafla í 2. leikhluta, þar sem gestirnir náðu aðeins að saxa niður forskotið. Staðan var 44-34 í hálfleil.
Þórsarar mættu svo feiknar sterkir til leiks í seinni hálfleik og svo gott sem kláruðu leikinn í 3. leikhluta með frábærum varnar og sóknarleik. Vestramenn áttu engin svör í seinni hálfleik og niðurstaðan því öruggur 23 stiga stigur Þórsara.
Daniel Mortensen var virkilega flottur með 27 stig og 11 fráköst. Ronaldas Rutkauskas skoraði 14 stig og tók 13 fráköst og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 12 stig. Glynn Watson skoraði 11 stig og gaf 11 stoðsendingar. Hinn 16 ára gamli Tómas Valur Þrastarson og Luciano Massarelli skoruðu 10 stig hvor, auk þess sem Massarelli sendi 9 stoðsendingar.