Mikið ævintýri er fram undan hjá Erlendi Ágústi Stefánssyni en eftir slétta viku heldur hann vestur til Bandaríkjanna þar sem hann mun stunda háskólanám og spila körfubolta. Hafnarfréttir vildu forvitnast meira um ævintýri hans en hann er að fara upplifa það sem flestum ungum körfuboltamönnum dreymir um.
„Ég er að fara til Bandaríkjanna í háskóla sem heitir Black Hills State University. Hann er staðsettur í bæ sem heitir Spearfish og er í South Dakota fylki. Bærinn er ekki mjög stór en skólinn er frekar stór miðað við bæinn og er þetta þriðji stærsti háskólinn í South Dakota,“ sagði Erlendur í samtali við Hafnarfréttir.
Erlendur verður á körfuboltaskólastyrk á meðan á náminu stendur sem þýðir að hann mun ekki þurfa að greiða skólagjöld eins og aðrir sem ekki fá skólastyrk. „Liðið leikur í annari deild háskólakörfuboltans og er í „Rocky Mountain Conference“ en það er riðillinn á svæðinu í kringum skólann minn,“ sagði Erlendur aðspurður út í skólaliðið sem hann mun spila með.
Erlendur hefur undanfarin ár leikið með liði FSu á Selfossi við mjög góðan orðstír. FSu tryggði sér á síðustu leiktíð sæti í Dominos-deildinni en þar var hann lykilmaður. Það var fyrir tilstuðlan þjálfara FSu að Erlendur fékk tækifæri til að fara út í nám og spila körfubolta. „Erik Olson, fyrrverandi þjálfari minn hjá FSu, þekkir þjálfarann í skólanum úti mjög vel og kom mér í samband við hann. Úr því varð að hann bauð mér að koma og spila fyrir sig.“
Fyrstu önnina mun Erlendur læra Physical Education, það er nokkurn veginn það sama og íþróttakennaranám hér á Íslandi. „Það er ekki alveg á hreinu hvort ég haldi áfram í því eða ekki. Fyrsta önnin mín verður þó mjög ljúf þar sem þjálfarinn lagði áherslu á að ég myndi ekki drekkja mér í námi fyrstu önnina á meðan ég væri að komast inn í hlutina og ná almennilegum tökum á tungumálinu.“
Átökin í körfunni hefjast strax á þriðja degi eftir komuna til Bandaríkjanna. „Það er eins gott að vera tilbúinn í átök því maður hefur heyrt að það sé vel tekið á því þarna úti og ekkert gefið eftir.“
Erlendur er orðin mjög spenntur fyrir þessu mikla ævintýri en það verða einnig viðbrigði fyrir hann að flytja svo fjarri frá sínum nánustu. „Vistin úti verður góð lífsreynsla fyrir mig og á örugglega eftir að koma sér vel fyrir mig seinna meir,“ segir þessi öflugi körfuboltamaður að lokum.