Fyrr í dag undirrituðu fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfus og fulltrúar Framkvæmdafélagsins Arnarhvols bindandi samkomulag um byggingu nýs miðbæjar í Þorlákshöfn. Samkomulagið byggir á gildandi aðalskipulagi með áherslu á hvernig nýta má svæðið í kringum Selvogsbrautina til að skapa manneskjulegan og fallegan miðbæ.
Hinn nýji miðbær mun rýsa norðan Selvogsbrautar. Hann mótast af 200 metra langri göngugötu þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á skrifstofum, verslunum, þjónustu og íbúðabyggð auk nauðsynlegra opinna svæða og torga sem styðja við mannlíf og menningu. Þá stefna aðilar samkomulagsins að samvinnu um byggingu fjölnota menningarsalar í hinum nýja miðbæ sem ef af yrði myndi m.a. nýtast fyrir tónlistarviðburði og til sýninga á listmunum, ljósmyndum, safnamunum og fl.
Samkomulagið við Arnarhvol er með þeim hætti að Arnarhvoll skuldbindur sig til uppbyggingar hins nýja miðbæjar á grundvelli deiliskipulags sem aðilar vinna í sameiningu þannig að á svæðinu rísi eftirsóknarverð, hagkvæm og aðlaðandi byggð sem styrki Sveitarfélagið Ölfus í sessi sem eftirsóknarverðan búsetukost. Skýrt er tekið fram að skipulagsvaldið er eftir sem áður allt á hendi sveitarfélagsins eins og vera ber. Þá greiðir Arnarhvoll allan kostnað við framkvæmdina þar með allan kostnað við gatnagerð, götulýsingu, yfirborðsfrágang og fl.
„Þorlákshöfn hefur vaxið hratt á seinustu árum. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á uppbyggingu atvinnulífsins og mörg lofandi verkefni sem þegar er byrjað að vinna að. Í samfélaginu er ríkur vilji til að standa vel að uppbyggingu og sterk vitund um mikilvægi þess að saman fari fjölgun íbúa og uppbygging á mannlífi, menningu og þjónustu. Arnarhvoll hefur metnað til að taka þátt í þessari uppbyggingu með íbúum og stjórnendum sveitarfélgsins.“ saðgi Karl Þráinsson framkvæmdastjóri Arnarhvols við undirritun samkomulagsins.
Elliði Vignsson, bæjarstjóri Ölfuss segir að í framhaldi af uppbyggjandi samtali milli sveitarfélagsins og Arnarhvols, um m.a. þá miklu uppbyggingu sem hér er að eiga sér stað hafi Arnarhvoll lýst áhuga sínum á að standa að metnaðarfullri uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna í Þorlákshöfn. „Við sem hér búum þekkjum vel hversu öflugt mannlífið í Þorlakshöfn er. Nýi miðbærinn okkar mun án vafa bjóða upp á umhverfi sem laðar til sín fólk, eykur þjónustustigið og eflir mannlíf og menningu. Ég er bjartsýnn á að við getum lokið hönnun og skipulagi á þessu svæði núna strax í haust og fljótlega út úr því geti framkvæmdir hafist.“