Eftir talsvert hlé er nú komið að Ölfusingi mánaðarins hér á Hafnarfréttum. Það er Hulda Gunnarsdóttir sem fær þann heiður að þessu sinni en hún fagnaði fimmtugsafmæli sínu þann 12. febrúar síðastliðinn. Hulda er borinn og barnfæddur Þollari og hefur látið til sín taka meðal annars með Lúðrasveit Þorlákshafnar og Leikfélagi Ölfuss svo eitthvað sé nefnt.

Fullt nafn: Hulda Gunnarsdóttir

Aldur: Fimmtug, loksins komin í fullorðinna manna tölu

Fjölskylduhagir: Ég er gift Gústaf Ingva Tryggvasyni og eigum við einn dreng sem er orðinn 27 ára gamall, Kristin Daða Gústafsson

Starf: Sjúkraliði, nýútskrifuð og afar stolt af sjálfri mér fyrir að ráðast í nám svona korter í fimmtugt. Það segir okkur að það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast!

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma? Ég er fædd og uppalin í Þorlákshöfn og er búin að búa hér nánast óslitið frá fæðingu. Flutti í örskamma stund í burtu til að tryggja mér eiginmann minn, en flutti hann inn í samfélagið 1999 og hér hefur hann/við verið síðan og viljum hvergi annars staðar vera.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Þegar stórt er spurt! Ég er óttaleg hóra á mat og finn mér oft uppáhalds mat á nýjum stöðum í heiminum sem ég heimsæki. Núna á siðasta ferðalagi fann ég t.d arabískt veitingahús sem gerði svo dásamlegan mat handa mér á afmælisdaginn minn. En alltaf er ég nú hrifnust af skötu og vel feitu hrossakjöti. 

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?  Englar Alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson hafði mikil áhrif á mig.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur? Monty Python myndirnar gat ég horft á aftur og aftur hérna áður fyrr, reyndar skammarlega langt síðan síðast, en það sem ég horfi á núorðið er þáttaserían Band of Brothers, hana get ég horft á aftur og aftur og ekki síður hlustað á vegna dásamlegu tónlistarinnar sem í þáttunum er.

Hvað hlustar þú mest á? Ég hlusta mest á tónlist, bæði klassíska tónlist sem ég hef alltaf meiri og meiri ánægju af eftir því sem ég eldist og svo er það mín go to hljómsveit sem er Muse…hún hressir, bætir og kætir mig þó málefnin sem tekið er á í lögum þeirra sé ekki neitt léttmeti. 

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi? Minn uppáhalds staður er Skötubótin. Þar get ég verið tímunum saman og hlustað á hafið, fuglana og rokið búa til fallegustu hljóðin sem eru fyrir mig róandi og endurnærandi.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf? Fer og hitti fólk. Best þykir mér að fara og hitta frænkubörnin mín og fá frá þeim og gefa þeim skilyrðislausa ást, það nærir mig svo mikið.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mínar helstu fyrirmyndir hafa alltaf verið Hulda amma og Siggi afi. Dugnaður, áræðni og fyndni er eitthvað sem stendur hátt upp úr. Hulda amma var sérlega orðheppin kona og lifir sú ”Huldammíska” enn góðu lífi í okkur fólkinu hennar. 

Hvaða lag fær þig til að dansa? Meira fjör með meistara Sigurði Ólafssyni (p.s ekki afi)

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin? Já ég hef grátið af gleði og hefur það alltaf verið tengt litlu börnunum mínum, hvítvoðungunum sem ég hef fengið að halda á. Ég man þegar ég fékk nöfnu mína í fangið í fyrsta skiptið…það kallaði fram gleðitár.

Hvað elskar þú við Ölfus? Hvað allt er einfalt, ég sé Þolló sem mína heimahöfn og þar er ég alltaf óhult.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar? Það er margt, ég myndi vilja sjá hjúkrunarheimili fyrir fólkið okkar sem byggði þennan bæ! Fólkið okkar gerði Þorlákshöfn að þessum bæ sem hann er og að mínu áliti  eiga það að vera sjálfsögð mannréttindi að fá að lifa og deyja í sinni heimahöfn. 

Hver er uppáhalds æskuminningin þín? Mín uppáhalds æskuminning er að sitja á klöppinni í garðinum hjá ömmu og afa á Oddabrautinni með rabarbara úr garðinum og sykur í gulum útilegubolla. Dýfa sætum og súrum rabbarbaranum ofan í sykurinn og stinga honum upp í sig. Þessi minning kallar fram sælutilfinningu. 

Hvert dreymir þig um að fara? Mig dreymir um að fara út um allan heim og sjá allt! Mér finnst mér ekki nægja að sjá heiminn í mynd, heldur þarf ég að fá að sjá hann og káfa á honum (amma Hulda hefði sagt það). Það er svo margt sem mér finnst bíða mín úti í heimi, margt að sjá, margt að upplifa og svo mikil saga sem þarf að læra.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega? Mitt mottó er Trúðu á sjálfa þig! 

Hvað er framundan hjá þér? Ég er alltaf með fulla dagskrá og síðustu ár fóru í það að læra sjúkraliðann og útskrifaðist ég úr því námi síðastu jól. Nú er ég að klára síðustu fögin upp í stúdentinn og mun útskifast úr því nú í vor. Næsta haust ætla ég svo að skrá mig í nám við HA og fara í hjúkrunarfræði.  

Eitthvað að lokum? Brostu til allra og brosið mun smita út frá sér.