Ungmennaráð Ölfuss hefur ákveðið að blása til sápuboltamóts á grasinu við grunnskólann í dag klukkan 18:00.
Sápuboltinn hefur notið gríðarlegra vinsælda í höfninni undanfarin tvö ár en keppnin hefur iðulega verið haldin á Hafnardögum.
„Við höfum fengið margar áskoranir undanfarið eftir vel heppnað sápuboltamót á Hafnardögum í byrjun júní“ sagði Valur Rafn starfsmaður ungmennaráðs um mótið í dag.
Skráning liða verður á staðnum en 5 leikmenn eru í hverju liði með markmanni. Ungmennaráðið ætlar síðan að grilla ofan í keppendur ljúffengar pylsur að loknu móti.